Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fleiri og endurbætt hjúkrunarrými á áætlun

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma framlengist til 2024. Við hana bætist uppbygging á Ísafirði og gagngerar endurbætur á hjúkrunarrýmum í Hveragerði, í Neskaupstað og á Patreksfirði. Staða þeirra er aðkallandi að mati heilbrigðisráðuneytisins.

Á Ísafirði bætast við tíu ný rými. Hjúkrunarheimilið Eyri opnaði þar í byrjun 2016 með þrjátíu rýmum sem þá tóku við af öldrunardeild sjúkrahússins á Ísafirði. Þá þegar var augljós þörf á fjölgun og biðtími langur. Hildur Elísabet Pétursdóttir, deildarstjóri Eyrar segir að þau sem fá pláss á Eyri hafa þegar klárað önnur úrræði og oft endað inni á bráðadeild sjúkrahússins á meðan á bið stendur.

„Þetta er fólk sem í rauninni er orðið fast á bráðadeild. Þetta er fólk sem er heima hjá sér í slæmum aðstæðum og þið getið ímyndað ykkur þegar það er farið að bíða eftir hjúkrunarrými í ár heima að þá eru aðstæður oft orðnar ansi erfiðar,“ segir Hildur.

Mynd með færslu
Loftmynd af væntanlegri viðbyggingu við Eyri

Í Hveragerði, Neskaupstað og á Patreksfirði fara fram gagngerar endurbætur. Aðstaða þessara hjúkrunarrýma er úr sér gengin og þörf á endurbótum svo þau uppfylli viðmið. Brýnt er orðið að bæta aðstæður og aðbúnað íbúa samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu. Á Patreksfirði eru herbergi tvísetin og eitt þrísetið.

„Það þarf að taka öll herbergi hérna í gegn. Það er til dæmis eitt herbergi sem er af gamla skólanum. Þriggja manna herbergi, sem verður að einstaklingsherbergi. Það eru engin klósett inni á herbergjunum. Þetta er mjög gamaldags og kominn tími til að breyta.“ segir Svava Magnea Matthíasdóttir, hjúkrunarstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði.