Fleiri mál tilkynnt til héraðssaksóknara

24.04.2019 - 06:16
Mynd með færslu
Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon. Mynd: RÚV/samsett mynd
Skiptastjóri þrotabús United Silicon hefur á undanförnum mánuðum tilkynnt nokkur ný mál er viðkoma þrotabúinu til héraðssaksóknara. Kröfur í búið nema um 23 milljörðum króna. Eins og staðan er nú er líklegt að ekkert fáist upp í almennar kröfur, né launakröfur.

„Við höfum sent nokkur mál til lögreglu. Eftir því sem vinnu skiptastjóra hefur miðað áfram hefur verið eitt og annað sem við viljum að héraðssaksóknari skoði,“ segir Geir Gestsson, skiptastjóri þrotabúsins. Hann vill ekki gefa upp hve mörg málin eru né hvers eðlis. Hann segir að vinna við þrotabúið sé umfangsmeiri en talið var í byrjun og að henni verði ekki lokið fyrr en eftir nokkur ár.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfestir að fleiri mál hafi verið tilkynnt til embættisins. Þau eru nú hluti af rannsókn sem þegar var hafin á málum sem skiptastjóri hafði áður tilkynnt um.

Ólíklegt að aðrir en Arion banki fái kröfur greiddar

Þrotabúið hefur þegar höfðað tvö skaðabótamál á hendur Magnúsi Garðarssyni, stofnanda félagsins, fyrir meint fjársvik hans upp á samtals um 570 milljónir króna. Kröfur í búið námu um 23 milljörðum og var Arion banki stærsti kröfuhafinn. Geir segir að hvorki eigi eftir að fást neitt upp í almennar kröfur né launakröfur. Aðrir en Arion banki eigi ekki von um að fá neitt upp í kröfur sínar eins og staðan er núna.

Fengu uppsagnarfrestinn greiddan

Starfsmenn verksmiðjunnar voru 50 til 60 þegar fyrirtækið fór í þrot. Að sögn Guðbjargar Kristmannsdóttur, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, voru 30 þeirra í félaginu. Fyrirtækið greiddi þeim laun fyrir síðasta mánuðinn og uppsagnarfrestinn greiddi Ábyrgðarsjóður launa. 

Eftirlit Umhverfisstofnunar án fordæma

Starfsemi í verksmiðjunni hófst haustið 2016. Fyrirtækið varð gjaldþrota í janúar í fyrra og hafði þá verið í greiðslustöðvun síðan í ágúst 2017. Starfsemi í verksmiðjunni lauk því innan við ári eftir að hún hófst. Mikil mengun barst þaðan og bilanir voru tíðar. Dæmi voru um að íbúar fyndu fyrir líkamlegum einkennum, svo sem sviða í augum, óþægindum í öndunarvegi og höfuðverk. Fjöldi tilkynninga um mengun barst Umhverfisstofnun sem hafði viðamikið eftirlit með starfseminni, það mesta sem stofnunin hefur haft með nokkru fyrirtæki. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi