Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fleiri mæla gegn staðgöngumæðrun

02.12.2015 - 14:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hagsmunir barna hafa ekki verið tryggðir í frumvarpi um staðgöngumæðrun, að mati Barnaheilla. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna um frumvarpið sem liggur nú fyrir Alþingi. Mikill meirihluti þeirra sem skilað hafa inn umsögnum hafa lýst efasemdum um frumvarpið og efni þess.

Barnaheill segja að mörg atriði frumvarpsins séu á siðferðilegum mörkum, þar á meðal hvernig staðið verði að afhendingu barns. Þar segir að umþóttunartími staðgöngumóður og rými til að hætta við afhendingu barns sé of rúmur ef mið er tekið af hagsmunum barnsins. Barnaheill vísa til þess, eins og fleiri í umsögnum sínum, að staðgöngumæðrun sé hvergi leyfð á Norðurlöndum og að löng hefði sé fyrir að Ísland fylgi lagaþróun norrænu ríkjanna. Þá er minnt á ættleiðingar í umsögninni og sagt að mikilvægara sé að leggja áherslu á að tryggja öllum börnum rétt til lífs og þroska en að samþykkja frumvarpið.

Læknafélag Íslands segir í umsögn sinni að staðfesting ákvæða um staðgöngumæðrun sé ekki tímabær að sinni, þó í velgjörðaskyni sé. Félagið vísar til fyrri umsagna um staðgöngumæðrun og segir afstöðu sína óbreytta frá fyrri athugasemdum, 2011 og 2013.

Meginþorri þeirra samtaka og stofnana sem hafði áður skilað umsögn lýsti sig andvígan frumvarpinu. Tvenn samtök hafa fagnað frumvarpinu og hvatt til þess að það verði að lögum. Í nokkrum umsögnum er ekki tekin bein afstaða til málsins heldur einungis þeirra þátta sem snúa að viðkomandi stofnunum.