Fleiri konur en karlar skipaðar í nefndir

19.06.2018 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Fleiri konur en karlar voru skipaðar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ráðuneytanna í fyrra og er það í fyrsta skipti sem það gerist. Konur eru rétt tæplega helmingur nefndarmanna í heildina.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Jafnréttisstofu sem birt var í morgun. Samkvæmt henni sátu samtals 3.270 manns í nefndum, ráðum og stjórnum fyrir hið opinbera á síðasta ári. Karlar voru 52 prósent þeirra en konur 48 prósent. Það var þó misjafnt milli ráðuneyta. Þannig voru karlar 59 prósent þeirra sem skipaðir voru í trúnaðarstöður á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins en konur 56 prósent hjá velferðarráðuneytinu. Kynjaskiptingin var jöfnust í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 51 prósent konur á móti 49 prósent körlum. Árið í fyrra var það fimmta í röð þar sem öll ráðuneytin náðu viðmiði um að hvort kyn skipaði minnst 40 prósent sæta í nefndum, stjórnum og ráðum. Í fyrsta skipti voru konur í meirihluta nefndarfólks hjá þremur ráðuneytum sama árið: Það eru umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið.

Í fyrra voru tæplega þúsund stöður fylltar í stjórnum, nefndum og ráðum, konur voru tíu fleiri en karlar í heildina. Þá brá svo við að velferðarráðuneytið skipaði konur í 61 prósent nefndarsæta sem fyllt voru í fyrra en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið skipaði kalla í 59 prósent sæta sem það ráðuneyti fyllti. 

Jafnréttisstofa hefur haldið tölfræði um kynjaskiptingu í nefndum frá árinu 2008. Í upphafi þess tíma voru aðeins 43 prósent nefnda skipaðar þannig að það uppfyllti skilyrði um 40 prósenta lágmarkshlutfall hvors kyns. Í fyrra uppfylltu 70 prósent nefnda viðmiðið. 

Leiðrétt 15.46 Í upphaflegri gerð misritaðist að Jafnréttisráð hefði gert skýrsluna. Hið rétta er að skýrslan er á vegum Jafnréttisstofu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi