Fleiri karlar slasast á reiðhjólum

10.04.2013 - 19:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Meirihluti þeirra sem slasast á reiðhjólum eru ungir karlar. Að jafnaði koma fimm til sex hundruð manns árlega á bráðamóttökuna vegna reiðhjólaslysa. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn.

Það hefur færst í vöxt að fólk fari á reiðhjólum úr og í vinnu en reiðhjól eru ekki skráningarskyld ökutæki og því veit enginn nákvæmlega hve mörg hjól eru í landinu og það veit heldur enginn hvað verða mörg reiðhjólaslys.

Leitað var í sjúkraskrá bráðasviðs Landspítalans að öllum sem komið höfðu þangað vegna reiðhjólaslysa á sex ára tímabili frá 2005 - 2010. Þá komu 3.426 vegna reiðhjólaslysa, 500 til 600 á hverju ári. Tæp 70 prósent (68,2%) þeirra voru karlar og rösklega 30 prósent konur (31.8%).  

Ármann Jónsson, læknir, segir: „Þetta eru sem betur fer lítið slasaðir einstaklingar sem eru að koma hingað á bráðamóttökuna, en vissulega eru þó alvarlegri áverkar þarna inn á milli. Þetta eru yfirleitt yngri einstaklingar líka".

Tuttugu og fimm prósent þeirra sem komu vegna reiðhjólaslysa voru á aldrinum 11 til 20 ára og flest slysanna urðu á vorin og sumrin. Flestir hinna slösuðu voru með áverka á handlegg og öxl eða 45,6 prósent. Um 27 prósent (26,6%) voru með áverka á mjaðmagrind eða fótlegg, 15 prósent  voru slösuð á höfði og 13 prósent voru með áverka á andliti.

Aðrir áverkar voru á brjóstholi, kvið, hrygg og hálsi. Enn fremur voru þeir sem ekki voru með hjálm oftar með áverka á höfði og voru frekar lagðir inn á spítalann en hinir.  

„Það er grunur um að það séu fleiri iðkendur í dag, en það má kannski segja að þetta eru 500 til 600 slys ári sem koma hér á bráðamóttökuna. Það voru kannski fleiri slys en við áttum von á upphaflega".