Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fleiri fullnýttu persónuafsláttinn í fyrra

19.07.2018 - 16:05
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Tæplega 30.600 manns fullnýttu ekki persónuafslátt sinn á síðasta tekjuári, um 1.400 færri en fullnýttu hann ekki tekjuárið 2016. Heildarupphæð ónýtts persónuafsláttar var í fyrra um 10,5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata.

Meðalupphæð ónýtts persónuafsláttar var í fyrra 342.500 krónur en sú upphæð var þó nokkuð breytileg eftir aldurshópum. Meðalupphæð allra aldurshópa hækkaði um rúmar 11.500 krónur frá tekjuárinu 2016, en það samsvarar um það bil hækkun persónuafsláttar á ársgrundvelli milli tekjuáranna 2016 og 2017. 

Stærsti aldurshópurinn sem ekki fullnýtti persónuafslátt sinn var sá yngsti, fólk á aldrinum 16 til 20 ára, en um 14.000 manns á þeim aldri fullnýttu ekki afsláttinn í fyrra. Hlutfallslega var það þó fólk á aldrinum 26 til 50 ára sem minnst nýtti afsláttinn, en að meðaltali áttu þeir einstaklingar eftir um 400.000 krónur í ónýttum afslætti við lok tekjuárs. Sá hópur sem best nýtti afsláttinn en fullnýtti þó eigi, voru skattgreiðendur 67 ára og eldri sem áttu að meðtali um 300.000 krónur eftir í lok tekjuárs. 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til árið 2015 að ónýttur persónuafsláttur yrði greiddur út til allra launþega sem ekki nýta hann til fulls, en sú tillaga var ekki lögfest. Takmarkaður hópur skattgreiðanda getur þó sótt um endurgreiðslu til Ríkisskattstjóra við lok tekjuárs á grundvelli ónýtts persónuafsláttar. Til að eiga rétt á slíkri endurgreiðslu verður launamaður að uppfylla ákveðin skilyrði sem upptalin eru á vef RSK og sækja skriflega um endurgreiðslu fyrir 1. mars. 

Emilía Sara Ólafsdóttir Kaaber
Fréttastofa RÚV