Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fleiri flytjast til landsins en frá því

29.01.2018 - 09:27
Hnattlíkan í höndum.
 Mynd: Marja Flick-Buijs - RGBStock
Landsmönnum fjölgaði um 1.840 á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Í lok ársfjórðungsins bjuggu alls 348.580 manns hér á landi, 177.680 karlar og 170.910 konur, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. 222.590 bjuggu á höfuðborgarsvæðinu en 126.000 utan þess.

Alls fæddust 1.020 börn á fjórða ársfjórðungi en 550 létust. Á sama tíma fluttust 1.390 fleiri einstaklingar til landsins en frá því. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 110 umfram brottflutta, og var aldursskipting þeirra nokkuð jöfn fyrir utan aldurshópinn 20 til 29 ára en það var eini aldurshópurinn þar sem fleiri fluttust frá landinu en til þess.

Aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.280 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu og voru 520 þeirra á þrítugsaldri.

Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 140 manns á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Alls fluttust 500 íslenskir ríkisborgarar frá landinu, af þeim fluttust 270 til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku,190 talsins, 140 komu frá Noregi og 100 frá Svíþjóð. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 890 til landsins af alls 2.470 erlendum innflytjendum. Næst flestir komu frá Litháen, 250. Í lok fjórða ársfjórðungs bjuggu 37.950 erlendir ríkisborgarar á Íslandi.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir