Fleiri fátæk börn á Íslandi

28.10.2014 - 10:00
Erlent · Innlent · Mannlíf
Mynd með færslu
 Mynd:
Fátækt barna hefur aukist mest á Íslandi á árunum 2008 til 2012 af ríkjum OECD. Ísland er í neðsta sæti af fjörutíu og einu ríki og er næst á eftir Grikklandi. Mest fátækt er hjá börnum innflytjenda á Íslandi eða um 38 prósent.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem UNICEF á Íslandi kynnti í dag og ber heitið Kreppubörnin, áhrif efnahagskreppunnar á velferð barna í ríkum löndum.  Borin eru saman gögn frá 41 ríki innan OECD og Evrópusambandsins og athugað hvort fátækt barn hafi aukist eða minnkað frá árinu 2008.  Fram kemur að fátækt barna á Íslandi jókst um rúm 20 prósentustig frá árinu 2008 til 2012 eða frá 11,2 prósentum í 31,6. Þetta þýðir að 17 þúsund fleiri börn hér á landi hafa fallið undir lágtekjumörkin frá 2008. Líklegra er að börn einstæðra foreldra, börn sem eiga fjölskyldur þar sem atvinnuþátttaka er lítil og börn innflytjenda búi á heimilum undir lágtekjumörkum og er mest fátækt hjá börnum innflytjenda. 

Samkvæmt skýrslunni hefur efnislegur skortur meðal barna á Íslandi þrefaldast á tímabilinu, farið úr 0.9 prósentum í þrjú komma eitt.  Hagþróun í mörgum efnameiri ríkjum hefur færst aftur á bak um mörg ár í kjölfar efnahagshrunsins. Hjá barnafjölskyldum hér á landi hefur hún færst aftur til ársins 2003 og dreifist ójafnt á milli þjóðfélagshópa. 

Tæplega 77 milljónir barna í ríkjum OECD búa við fátækt og hafa  2,6 milljónir fallið undir lágtekjumörk í efnameiri ríkjum síðan 2008. Fátækt barna jókst í 23 ríkjum á tímabilinu. Í hinum ríkjunum 18 tókst að stemma stigu við þróuninni. Í nokkrum ríkjum eins og Ástralíu, Chile, Finnlandi, Noregi og Slóvakíu minnkaði hlutfall barnafátæktar.  

Fram kemur í skýrslunni að styrkur velferðarkerfa og áherslur í stefnumótun réðu úrslitum við að koma í veg fyrir aukna fátækt barna. 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi