Fleiri en 120 kynferðisbrotamál í rannsókn

08.02.2013 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Að minnsta kosti 122 kynferðisbrotamál eru í rannsókn hjá lögreglu á landinu öllu. Meirihlutinn snýr að brotum gegn börnum. Frá því mál Karls Vignis Þorsteinssonar komust í hámæli eftir umfjöllun Kastljóss í byrjun janúar hefur skriða kynferðisbrotamála borist lögregluembættum víða um land.

Langflest mál hafa komið upp á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn yfirmanns kynferðisbrotadeildarinnar þar gefur málafjöldinn til kynna fjölda þolenda. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú á milli 60 og 70 kynferðisbrotamál. Þar af hafa um 60 ný mál borist lögreglu frá áramótum en enn eru til rannsóknar nokkur mál frá því fyrir áramót. Samkvæmt upplýsingum þaðan snýr meirihluti mála í rannsókn að brotum gegn börnum.

Aðeins eitt mál í rannsókn á Austurlandi

Á Suðurnesjum eru alls fjórtán mál í rannsókn, þar af sjö sem hafa borist eftir áramót. Að sögn lögreglu snúast sex af þessum sjö nýju málum um brot gegn börnum. Á Vesturlandi og Vestfjörðum eru alls 20 kynferðisbrotamál í rannsókn, þar af tíu sem hafa borist eftir áramót. Stór hluti málanna snýst um barnaníð, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Á Norðurlandi rannsakar lögreglan sautján kynferðisbrotamál, þar af þrettán sem hafa komið upp frá áramótum. Í langflestum nýju brotanna eru þolendurnir börn, að sögn lögreglu. Á Austurlandi er einungis eitt kynferðisbrotamál til rannsóknar, þar mun ekki hafa verið brotið gegn barni. Að sögn lögreglu hefur ekkert kynferðisbrot verið kært frá áramótum. Á Suðurlandi rannsakar lögreglan tíu kynferðisbrotamál, þar eru átta sem hafa komið upp á þessu ári. Af þessum átta eru börn þolendur í sjö málum.

97 mál hafa komið til kasta lögreglu á þessu ári

Alls eru þetta að minnsta kosti 122 kynferðisbrotamál sem eru í rannsókn á landinu öllu. Þar af eru að minnsta kosti 97 sem hafa komið til kasta lögreglu á þeim rúmu fimm vikum sem eru liðnar af þessu ári. Í meirihluta málanna eru þolendurnir börn eða voru börn þegar brotin voru framin.

Margir skýra frá gömlum brotum

Algengt virðist vera að fólk hafi komið til lögreglu undanfarið til að upplýsa um gömul brot. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi eru flest nýju málin þar vegna ungs fólks sem vill kæra brot sem það varð fyrir áður en það varð átján ára. Þetta séu yfirleitt mál sem séu ekki fyrnd. Öll mál séu þó rannsökuð, jafnvel þótt þau séu fyrnd, og meintir gerendur séu látnir svara til saka.