Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fleiri bera traust til embættis forseta

25.02.2017 - 12:30
Víð mynd af Bessastöðum á Álftanesi
 Mynd: RUV
Landhelgisgæslan er sú stofnun hér á landi sem flestir bera mikið traust til, samkvæmt nýrri könnun Gallups. Mun fleiri treysta nú embætti forseta Íslands en á sama tíma í fyrra, þegar könnunin var síðast gerð. Umboðsmaður Alþingis nýtur um helmingi meira trausts en Alþingi sjálft.

Gallup mælir árlega traust landsmanna til hinna ýmsu stofnana samfélagsins. Rétt eins og í febrúar í fyrra er Landhelgisgæslan í fyrsta sæti; 92 prósent aðspurðra segjast bera mikið traust til hennar.

Í öðru sæti er Lögreglan, sem nýtur trausts 85 prósent þeirra sem spurðir voru. Embætti forseta Íslands er í þriðja sæti og er hástökkvari þessarar könnunar, ef svo má segja; í febrúar í fyrra sögðust 57 prósent aðspurða bera mikið traust til embættisins; núna eru 83 prósent þeirrar skoðunar - sem er hækkun um 26 prósentustig. Rúmlega þrír fjórðu bera mikið traust til Háskóla Íslands, 62 prósent treysta heilbrigðiskerfinu og 51 prósent aðspurða segjast bera mikið traust til umboðsmanns Alþingis. Það eru ríflega helmingi fleiri en þeir sem eru sömu skoðunar varðandi Alþingi sjálft; aðeins 22 prósent segjast bera mikið traust til löggjafarsamkomunnar - sem er þó fimm prósentustigum meira en í febrúar í fyrra. Dómskerfið nýtur trausts 43 prósent þeirra sem tóku þátt í könnun Gallups; ellefu prósentustigum fleiri en í fyrra, 38 prósent segjast bera traust til Þjóðkirkjunnar og 33 prósent til Seðlabankans. 

Borgarstjórn Reykjavíkur nýtur trausts 19 prósent aðspurða - Fjármálaeftirlitið sömuleiðis, og bankakerfið rekur svo lestina; fjórtán prósent aðspurðra segjast bera mikið traust til þess. 

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem gerð var dagana 9. til 21. febrúar 2017. Heildarúrtaksstærð var 1.411 og þátttökuhlutfall var 59,8%. Einstaklingar voru
handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV