Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fleiri ásakanir á hendur Oxfam

14.02.2018 - 00:38
Mynd með færslu
 Mynd: Oxfam International
Fleiri ásakanir eru nú komnar fram um kynferðislegt ofbeldi starfsmanna hjálparsamtakanna Oxfam. Varaformaður samtakanna sagði af sér í gær, í kjölfar fregna um að starfsmenn samtakanna á Haítí og í Afríkuríkinu Tjad hefðu misnotað konur í neyð. Í dag steig svo kona að nafni Helen Evans, fyrrverandi stjórnandi hjá Oxfam, fram og sagði frá viðlíka framferði í Suður-Súdan, þar sem Oxfam hefur starfað um árabil - ekki aðeins gagnvart fólki í neyð, heldur einnig gagnvart starfsmönnum Oxfam.

Evans sagði einnig dæmi um að unglingar sem starfa í verslunum Oxfam í Bretlandi hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hún segir yfirmenn samtakanna hafa brugðist algjörlega.

Enn bættist á vanda samtakanna þegar formaður alþjóðadeildar þeirra, Juan Alberto Fuentes Knight, var handtekinn í heimalandi sínu Gvatemala vegna gruns um spillingu. Talsmaður Oxfam segir Fuentes halda fram sakleysi sínu og taki fullan þátt í rannsókn málsins.

Breska leikkonan Minnie Driver er meðal þeirra sem sagði starfi sínu lausu hjá samtökunum. Þar hefur hún gengt embætti sendifulltrúa. Hún sagði á Twitter að hún væri algjörglega miður sín vegna þeirra kvenna sem væru misnotaðar af fólki sem er sent til að hjálpa þeim, og miður sín vegna viðbragða samtaka sem hún hafi fylgt og aðstoðað frá níu ára aldri.