Fleiri afbókanir en bókanir hjá gististöðum

18.03.2020 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Ferðatakmarkanir um víða veröld bitna illa á hótelum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu um allt land. Hótelum verður lokað og uppsagnir blasa við. Fimm af sjö hótelum Central hótela í Reykjavík verður lokað vegna afbókana seinustu daga.

 Efnahagsleg áhrif kórónaveirufaraldursins koma illa við ferðaþjónustuna hér á landi. Afbókunum rignir inn og leitað er allra leiða til að hagræða og bregðast við. Í Morgunblaðinu í dag kom fram að Center hótel ætli að loka fimm af sjö hótelum sínum í Reykjavík. Þá segir  Páll Sigurjónsson, framkvæmdastjóri KEA Hótela að þar sé verið að skoða alla möguleika í sameiningum og hagræðingu. Allir séu að sníða sér stakk eftir vexti. Búast megi við erfiðum tímum fram eftir vori. 

Sömu sögu er að segja af gististöðum og fyrirtækjum í ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps og ferðaþjónustu- og sauðfjárbóndi, segir að landið sé að tæmast. 

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég upplifi, og örugglega margir  aðrir að það koma fleiri afbókanir heldur en bókanir“ segir Einar. 

Vorið rólegt og sumarið í óvissu

Hann segir að útséð sé að vorið verði rólegt. Til langs tíma litið geti það komið illa við sveitarfélög sem reiða sig á ferðaþjónustu.

„Auðvitað horfir það ekki vel við. Það er búið að fjárfesta gríðarlega mikið í þessarri grein. Ef við horfum bara á mitt sveitarfélag hér Mýrdalshrepp þá hefur fjölgað hlutfallslega mest hér af íbúum í landinu sem að vinna flestir við ferðaþjónustu. Ef þetta verður langvarandi ástand sjáum við fram á að það muni fækka hérna mjög skart og þetta verður mjög erfitt fyrir þau fyrirtæki sem hafa fjárfest. Ég og fleiri höldum í vonina að við náum að minnsta kosti hluta úr sumrinu,“ segir Einar Freyr.

Viðbúið er að niðursveiflan verði til þess að fólki verði sagt upp vinnunni. 

„Já já, auðvitað hefur maður heyrt það,  það er lítið annað í stöðunni þegar það koma engir gestir, þá er ekki hægt að reka hótel.  Þetta er ekki ástand sem er nokkrum að kenna. Ég upplifi svolitla samvinnu hugsjón í þessu,“ segir Einar.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi