Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flakkar milli flygla í Evrópuborgum

Mynd: Menningin / RÚV

Flakkar milli flygla í Evrópuborgum

19.12.2017 - 18:02

Höfundar

Píanóleikarinn og tónskáldið David Ianni frá Lúxemborg flakkar þessa mánuðina á milli borga sem hlotið hafa titilinn Menningarborg Evrópu og tekur upp myndband við frumsamið lag á hverjum stað. Markmiðið er að auka evrópska samvitund og áhuga á klassískri tónlist. Ianni var í Reykjavík um helgina og tók þar upp lag tileinkað borginni.

Verkefni Iannis nefnist My Urban Piano og hófst í upphafi þessa árs. Reykjavík er fimmta borgin af tólf sem David heimsækir. Áður hefur hann tekið upp myndbönd í Lúxemborg og Esch í heimalandi sínu, Árhúsum í Danmörku og Prag í Tékklandi. 

„Helsta markmiðið er að kynna Evrópuhugmyndina, um að við eigum samleið og það ríki gagnkvæmur skilningur og friðsamlega samskipti milli Evrópuríkja. Það má líka segja að ég sé tónlistarsendiherra Lúxemborgar. Að sjálfsögðu vil ég fara með tónlistina mína til allra landanna og snerta við fólki með tónlistinni.“ 

Upphaf verkefnisins má rekja til þess þegar Ianni gerði myndband við lagið Mama sem hann tileinkaði móður sinni á mæðradaginn.

Mynd með færslu
 Mynd: Menningin - RÚV

„Borgaryfirvöld í Lúxemborg settu upp litrík píanó víða um borgina um sumarið. Ég gerði myndband þar sem ég lék þetta verk fyrir móður mína á mismunandi píanó. Það breiddist út á netinu og þá sá ég að þetta væri góð hugmynd. Þó að tónlistin mín sé klassísk einset ég mér að hreyfa við fólki sem hlustar almennt ekki á klassíska tónlist. Mér þótti afbragsðhugmynd að fara með þetta frá Lúxemborg og um alla Evrópu. Upp frá þessu þróaðist verkefnið My Urban Piano þar sem ég fer til menningarborga Evrópu.“

Rætt var við Ianni í Menningunni og má horfa á innslagið hér að ofan.