Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flak af breskum dráttarbát fannst á Faxaflóa

15.05.2018 - 21:58
Mynd með færslu
Byssa framan á skipinu. Mynd: Landhelgisgæslan
Flak breska dráttarbátsins Empire Wold fannst á dögunum á innanverðum Faxaflóa. Skipið fórst í nóvember 1944 og með því sautján menn; níu manna áhöfn og átta bandarískir sjóliðar. Íslenskum aðstandendum eins skipverjans og breska sendiráðinu hefur verið tilkynnt um fundinn, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslu Íslands. Einn skipverjanna á dráttarbátnum var kvæntur íslenskri konu og áttu þau níu mánaða gamla dóttur þegar slysið varð.

Örlög dráttarbátsins tengjast hildarleiknum þegar flutningaskipinu Goðafossi og tankskipinu Shirvan var sökkt af þýskum kafbáti við Garðskaga 10. nóvember 1944. Dráttarbáturinn sem sendur frá Reykjavík til að reyna að bjarga tankskipinu.

Ýmsar getgátur hafa verið uppi um hugsanleg örlög dráttarbátsins, að því er segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar. Meðal annars þær að honum hafi verið sökkt af kafbáti eð að hann hafi siglt á tundurdufl. Ekkert hafi komið fram um það í gögnum Þjoðverja um að kafbátur hafi sökkt dráttarbáti við Íslandi og því var síðar farið að horfa til þess hvort veður og sjólag kynnu að hafa grandað Empire Wold. Rannsókn á flakinu hefur leitt í ljós að ekkert bendi til þess að skipið hafi orðið fyrir tundurdufli. Því er enn óljóst hvers vegna það sökk.

Varðskipið Þór var við sjómælingar í lok apríl. Á innanverðum Faxaflóa urðu skipverjar varir við þúst á hafsbotni. Ekki var vitað um skipsflak á þessum slóðum og var sjómælingabáturinn Baldur sendur til rannsókna með fjölgeislamæli. Sjálfstýrður kafbátur var einnig hafður með. Gögn úr mælingum sýndu að flak var á botninum. Þar sem ekki var hægt að staðfesta hvaða skipsflak væri á botninum og fór Baldur í annan leiðangur með neðansjávarmyndavél Árna Kópssonar. Með gögnum úr þeim leiðangri var hægt að staðfesta að flakið væri af dráttarbátnum breska. 

Mynd með færslu
Líkan af breska dráttarbátnum. Mynd: Aðsend mynd
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir