Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjöruverðlaunin afhent

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg

Fjöruverðlaunin afhent

15.01.2018 - 17:00

Höfundar

Kristín Eiríksdóttir, Unnur Jökulsdóttir og Kristín Helga Gunnarsdóttir hljóta Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, í ár. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Höfða.

Verðlaun eru veitt í þremur flokkum, flokki fagurbókmennta, flokki fræðibóka og rita almenns eðlis og flokki barna- og unglingabókmennta.

Kristín Eiríksdóttir hlýtur verðlaun í flokki fagurbókmennta fyrir skáldsöguna Elín, ýmislegt. Unnur Jökulsdóttir hlýtur verðlaun í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk. Kristín Helga Gunnarsdóttir hlýtur verðlaun í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir bókina Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels.

Í rökstuðningi dómnefndar um skáldsögu Kristínar Eiríksdóttur, Elín, ýmislegt, segir að þar flétti höfundurinn sögu tveggja kvenna sem dregnar eru sterkum og trúverðugum dráttum.

Mynd með færslu
 Mynd:

„Í bókinni er tekist á við höggbylgjurnar sem ríða yfir eftir áföll og halda áfram sínu nötrandi ferðalagi um lífið á djúpstæðri tíðni. Á einkar næman og áhrifaríkan hátt er hér fjallað um skynjun manneskjunnar á veruleikanum, flóttaleiðir hugans, einsemd, hið gleymda og falda.“

Um Undur Mývatns, eftir Unni Jökulsdóttur, segir dómnefndin að lesandinn skynji töfra og fegurð Mývatns og bókin sé dýrmæt perla, líkt og vatnið sjálft.

Mynd með færslu
 Mynd: cc

„Unnur kveikir fjölmargar hugrenningar um samhengi manns og náttúru og gerir lontuna, húsöndina og slæðumýið ódauðlegt. Unnur sýnir hvernig skeytingarleysi tortímdi kúluskítnum og lýsir áhyggjum af framtíð vatnsins ef við gætum þess ekki vel.“

Bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, Vertu ósýnilegur, er einstaklega vel byggð bók um málefni sem brennur á okkur öllum, segir í rökstuðningi.

Mynd með færslu
 Mynd: cc

„Sjónarhornið flakkar milli þeirra tveggja og skapast þannig spenna sem heldur lesandanum föngnum. Sagan fjallar öðrum þræði um hörmungar en fyrst og fremst um mennsku og mannhelgi og er það undirstrikað með tilvitnunum úr Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna í upphafi hvers kafla.“

Einnig voru tilnefndar Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Slitförin eftir Fríðu Ísberg í flokki fagurbókmennta; Íslenska lopapeysan: Uppruni saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur og Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; Lang-elstur í bekknum eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur og Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir eftir Brynhildi Þórarinsdóttur í flokki barna- og unglingabókmennta.

Dómnefndir Fjöruverðlaunanna 2018 skipa: Bergþóra Skarphéðinsdóttir íslenskufræðingur, Guðrún Lára Pétursdóttir ritstjóri og Salka Guðmundsdóttir leikskáld og þýðandi í flokki fagurbókmennta; Helga Haraldsdóttir sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sigurrós Erlingsdóttir íslenskukennari og Þórunn Blöndal dósent í íslenskri málfræði í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis; Arnþrúður Einarsdóttir kennari, Sigrún Birna Björnsdóttir framhaldsskólakennari og Þorbjörg Karlsdóttir bókasafnsfræðingur í flokki barna- og unglingabókmennta.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Ég hélt að þessi saga yrði ekki dramatísk“

Bókmenntir

Fjöruverðlaunin - tilnefningar 2017

Bókmenntir

Þurfa að vera ósýnileg til að lifa af

Bókmenntir

„Eins og að horfa í stjörnukíki út í geiminn“