Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjórtán kokkar hættir í kokkalandsliðinu

06.09.2018 - 23:05
Mynd: Kokkalandsliðið  / Kokkalandsliðið
Fjórtán matreiðslumeistarar í kokkalandsliðinu hafa sagt sig úr því í mótmælaskyni við þá ákvörðun stjórnarinnar að gera samstarfssamning við Arnarlax. Frá þessu greindi einn landsliðsmaðurinn, Ylfa Helgadóttir, á Facebook-síðu sinni í kvöld. Sturla Birgisson, fyrrverandi þjálfari liðsins sagði sig fyrr í dag úr Klúbbi matreiðslumeistara vegna samningsins við Arnarlax. Fyrrverandi varaformaður klúbbsins mótmælir ákvörðuninni einnig.

Ylfa segir í Facebookfærslu sinni að hún sem kokkalandsliðsmaður og hin þrettán mótmæli þeirri ákvörðun stjórnar landsliðsins að gera samning við fyrirtæki sem framleiði lax í opnu sjókvíaeldi.

„Slíkir framleiðsluhættir eru ógn við villta lax- og silungastofna og hafa margvísleg neikvæð umhverfisáhrif á lífríki Íslands,“ segir Ylfa og bætir við: „Ég nota eingöngu afurðir sem framleiddar eru á sjálfbæran hátt og í sátt við náttúruna og get ekki tekið þátt í því að kynna, fyrir hönd Íslands, vörur sem framleiddar eru með þessum hætti. Ég hef því ákveðið að draga mig út úr kokkalandsliðinu að svo stöddu.“

Fyrir neðan telur Ylfa síðan upp þá matreiðslumeistara sem hafa ákveðið að draga sig út úr kokkalandsliðinu. Að henni meðtalinni eru þeir alls fjórtán.

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV