Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjórðungur hyggst kjósa Sjálfstæðisflokkinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur nærri fjórðungs fylgi í landsvísu í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið. Könnunin er birt í Morgunblaðinu í dag. Vinstri græn eru næst stærst með rúman fimmtung atkvæða, þá Samfylkingin með rúm 15 prósent, Miðflokkurinn hlýtur rúmlega níu prósenta fylgi, Píratar tæp níu prósent, Viðreisn rúm átta og Framsóknarflokkurinn um átta prósent. Þessir sjö flokkar ná mönnum inn á þing miðað við niðurstöður könnunarinnar.

Flokkur fólksins bankar hraustlega á dyr Alþingis með rúmlega fjögurra prósenta stuðning í könnuninni, en mikið verk virðist vera fyrir höndum hjá Bjartri framtíð þennan síðasta dag fyrir kosningar. Flokkurinn mælist aðeins með rúmlega eins prósents fylgi.

Úrtak könnunarinnar voru 3.900 kjósendur en 1.956 tóku afstöðu til könnunarinnar. Af þeim sögðust 73 ætla að skila auðu, 25 ætluðu ekki að kjósa, 48 vildu ekki svra og 182 sögðust ekki vita hvað þeir ætla að kjósa.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV