Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjórðungur atvinnulausra með háskólamenntun

15.02.2018 - 11:43
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fólk með háskólamenntun er næst fjölmennasti hópur atvinnulausra, ef þeir eru flokkaðir eftir menntun, á eftir þeim sem eru eingöngu með grunnskólamenntun. Vinnumálastofnun hefur biðlað til opinberra stofnana og sveitarfélaga að horfa sérstaklega til þessa hóps við ráðningar í sumarstörf.

Atvinnuleysi hefur farið stigvaxandi undanfarna mánuði og mælist nú 2,4%. Atvinnuleysi mælist þó enn mjög lágt á Íslandi. Fjórðungur atvinnulausra, ríflega ellefu hundruð manns, er með háskólamenntun eða sérskólamenntun á háskólastigi. Þar af eru 150 viðskiptafræðingar, 54 lögfræðingar, 33 kennarar, 18 verk- og tæknifræðingar og 890 með aðra háskólamenntun. Háskólamenntaðir á atvinnuleysisbótum eru tvisvar sinnum fleiri en þeir sem eru með stúdentspróf. 

Vöxtur í atvinnulífinu ekki skilað sér til þessa hóps

Í ljósi þessa hefur Vinnumálastofnun sent öllum opinberum stofnunum og sveitarfélögum í landinu bréf, og beðið þau um að horfa sérstaklega til þessa hóps við ráðningar í sumarstörf. „Okkur þykir það óþægileg staðreynd hvað atvinnuleysi er mikið meðal þeirra sem eru með góða menntun, háskólamenntun, og hafa búið sig undir lífið með þeim hætti,“ segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. „Vöxtur í atvinnulífinu undanfarið hefur ekki skilað sér í eins miklum mæli til háskólamenntaðra og við hefðum helst viljað.“

Borga með starfsmönnum

Vinnuveitendum býðst þá starfsþjálfunarstyrkur sem næmi annað hvort hálfum eða fullum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði eða út ráðningartímann ef hann er styttri. Fullar bætur eru nú tæpar 228 þúsund krónur. Gissur segir markmiðið að gefa fólki tækifæri til að sanna sig á vinnumarkaði. „Það hefur í gegnum árin verið yfir 70% líkur á því að þeir sem að fá þetta aðgengi inn á vinnumarkaðinn verða þar áfram, ýmist í þeirri vinnu sem þeir fá eða annarri, kannski jafn góðri.“ Þá sé þetta til hagsbóta fyrir hinn atvinnulausa, þar sem full laun á vinnumarkaði eru jafnan hærri en fullar atvinnuleysisbætur.