Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjórði hver Íslendingur vantreystir kirkjunni

22.10.2018 - 13:11
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Traust almennings til Þjóðkirkjunnar minnkar um tíu prósentustig milli ára, en þriðjungur Íslendinga segist treysta stofnuninni mikið eða fullkomlega. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Tæp 40 prósent bera lítið traust til hennar. Traustið er mest meðal kjósenda Sjálfstæðisflokks og Miðflokksins. Ánægja með störf biskups hefur aldrei mælst lægra. Flestir vilja skilja að ríki og kirkju.

Lækkar úr 43 prósentum í 33 prósent milli ára

Gallup sendi frá sér þjóðarpúls í dag um málefni þjóðkirkjunnar. Þar sést skýrt að traust Íslendinga til hennar hefur minnkað mikið undanfarin 20 ár, en 1999 sögðust rúm 60 prósent bera mikið eða fullkomið traust til þjóðkirkjunnar. Hlutfallið er nú komið niður í 33 prósent. Hlutfallið var lægst 2012, þegar 28 prósent sögðust bera mikið traust til þjóðkirkjunnar. Það komst upp í 43 prósent í fyrra, en hefur nú dalað umtalsvert. Tæp 40 prósent bera lítið eða ekkert traust til kirkjunnar. 

Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur treysta mest

Þeir sem kjósa Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn bera alla jafna meira traust til þjóðkirkjunnar en kjósendur annarra flokka. Ríflega helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins bera fullkomið eða mikið traust til kirkjunnar og tæpur helmingur þeirra sem kjósa Miðflokkinn. Traustið er lægst meðal kjósenda Pírata, en rúmlega 70 prósent þeirra bera lítið eða alls ekkert traust til kirkjunnar. Þriðjungur kjósenda VG bera mikið eða fullkomið traust til þjóðkirkjunnar og rúmlega þriðjungur lítið eða ekkert. Tæplega fjórðungur kjósenda Samfylkingar treystir kirkjunni, helmingur lítið eða alls ekkert. Rúmlega helmingur kjósenda Viðreisnar treystir kirkjunni ekki, en tæp 20 prósent treysta ekki. 

Landsbyggðin treystir betur en höfuðborgarsvæðið

Eldra fólk ber meira traust til kirkjunnar en yngra, 55 prósent fólks á aldrinum 18 til 30 ára bera lítið eða ekkert traust til kirkjunnar, en tæpur helmingur þeirra sem eru 60 ára og eldri bera fullkomið eða mikið traust til hennar. 
Íbúar landsbyggðarinnar treysta kirkjunni betur en íbúar höfuðborgarsvæðisins. 38 prósent þeirra sem búa úti á landi bera fullkomið eða mikið traust til kirkjunnar og 27 prósent lítið eða alls ekkert. Dæmið snýst við þegar horft er til íbúa höfuðborgarsvæðisins, en 30 prósent þeirra treysta kirkjunni en 45 prósent treysta henni ekki. 

Einnig er munur á trausti fólks til kirkjunnar eftir fjölskyldutekjum. Hlutfall þeirra sem treysta þjóðkirkjunni lítið eða ekkert er hæst meðal þeirra tekjuhæstu, en lægst meðal fólks með tekjur á bilinu 800 þúsund til milljón.

Aldrei færri ánægðir með störf biskups og nú

Ánægja með störf biskups Íslands, Agnesar M. Sigurðardóttur, minnkar talsvert milli ára en tæp 14 prósent segjast ánægð með störf hennar. Hlutfallið var 27 prósent í fyrra og 45 prósent 2012 fyrsta ár hennar í embætti. Traust til biskups hefur aldrei mælst lægra, en 2011 sögðust 19 prósent aðspurðra ánægðir með störf þáverandi biskups, Karls Sigurbjörnssonar. Mest var ánægjan 1998 þegar 85 prósent sögðust ánægðir með störf Karls sem biskups. 42 prósent voru ánægðir með störf Ólafs Skúlasonar árið áður. 

Karlar ánægðari en konur og Píratar óánægðastir

Munur er á ánægju með störf eftir kyni, en konur eru ánægðari Agnesi en karlar og íbúar landsbyggðarinnar sömuleiðis ánægðari ánægðari en íbúar
höfuðborgarsvæðisins. Kjósendur Pírata eru óánægðastir með störf biskups, tæp 60 prósent, en kjósendur VG og Sjálfstæðisflokksins ánægðastir, 20 prósent þeirra sem kjósa þá flokka segjast ánægðir með störf hennar. 

Flestir vilja aðskilnað ríkis og kirkju

Meirihluti Íslendinga er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju og er viðhorfið nær óbreytt milli ára. Tæp 54 prósent eru hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, tæp 23 prósent hvorki né og rúmlega 23 prósent eru andvíg aðskilnaði. Hlutfallið var hæst 2010 þegar 61 prósent vildu skilja að ríki og kirkju. 

Karlar eru hlynntari aðskilnaði en konur, og yngra fólk er hlynntara honum en
eldra fólk. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru hlynntari aðskilnaði en íbúar landsbyggðarinnar og fólk með háskólapróf er hlynntara honum en þeir sem hafa minni menntun að baki. Hlutfall þeirra sem vilja aðskilnað er hæst meðal kjósenda Pírata og lægst meðal kjósenda Miðflokksins.