Fjórða mesta eyðing hitabeltisskóga á öldinni

26.04.2019 - 05:12
epa03694755 An aerial picture made available on 10 May 2013 shows a deforestated land in Tesso Nilo National Park, Riau province, Indonesia, 04 May 2013. According to Greenpeace, Indonesia is implementing a forest moratorium, but in fact the deforestation
 Mynd: EPA
Um 120 þúsund ferkílómetrum hitabeltisskóga var eytt af manna völdum í fyrra. Það er stærra svæði en flatarmál Íslands, sem nemur rúmum 103 þúsund ferkílómetrum. Þrátt fyrir umfangið er þetta ekki nema fjórða mesta eyðing skóga af manna völdum síðan mælingar hófust úr gervihnöttum árið 2001.

Um 36 þúsund ferkílómetrum áður ósnortinna regnskóga var eytt í fyrra, að sögn vísindamanna Alþjóðaskógarvaktarinnar í Maryland-háskóla. Mikaela Weisse, stjórnandi vaktarinnar, segir þetta í fyrsta sinn sem hægt er að sjá eyðingu slíkra skóga, þar sem tré geta verið nokkur þúsund ára gömul. Regnskógar eru þau svæði sem eru auðugust af lífríki á jörðinni, auk þess sem þeir eru nauðsynlegir til þess að binda koltvísýring.

Stærstur hluti hitabeltisskóganna sem hvarf í fyrra var í Brasilíu, eða um fjórðungur ferkílómetranna 120 þúsund. Austur-Kongó og Indónesía töpuðu um 12 þúsund ferkílómetrum hitabeltisskóga hvort um sig. Óttast er að nýr forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, láti verða af hugmyndum sínum um að skerða umhverfisreglugerðir til þess að leyfa landbúnaðarframleiðslu og námugröft á landsvæðum frumbyggja í Brasilíu. Landsvæðin ná yfir um tíu prósent landsvæðis Brasilíu. AFP fréttastofan hefur eftir utanríkisráðherra Brasilíu að ríkið ætli að passa upp á að samrýma landbúnaðarframleiðslu og umhverfisvernd.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi