Fjórar verslanir hættar að selja Brúnegg

29.11.2016 - 07:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krónan, Melabúðin, Bónus og Hagkaup hafa öll lýst því yfir að þær séu hættar að selja egg frá eggjaframleiðandanum Brúneggjum eftir Kastljós-þátt gærkvöldsins. Stofnaðir hafa verið tveir hópar á samfélagsmiðlinum þar sem fólk er hvatt til að sniðganga vörur fyrirtækisins. Bæði Brúnegg og Matvælastofnun fengu á baukinn frá netverjum í gærkvöld.

Fréttin var uppfærð 08:43 með nöfnum Hagkaups og Bónuss.

Kastljós fjallaði í gær um fordæmalaus afskipti Matvælastofnunar af eggjabúum Brúneggja en starfsfólk stofnunarinnar hefur um árabil talið að fyrirtækið blekkti neytendur með sölu á vistvænum eggjum. Stuðst var við gögn og skýrslur upp á nærri þúsund blaðsíður.  

Í þættinum kom meðal annars fram að Matvælastofnun (Mast) hefði í tæpan áratug haft upplýsingar um að Brúnegg uppfylltu ekki skilyrði sem settu voru fyrir því að merkja vörur sem vistvænar.  Dýralæknir alífuglasjúkdóma hjá Mast lét atvinnuvegaráðuneytið vita af þessari stöðu fyrir þremur árum. Skrifstofustjóri ráðuneytisins áframsendi erindið á starfsmann og bað hann um að „fronta það“ - málið sofnaði hins vegar í ráðuneytinu og Mast fékk aldrei að vita hvernig hún ætti að bera sig að.

Mynd: Matvælastofnun / Matvælastofnun
Kastljós-þáttur gærkvöldsins hefur vakið hörð viðbrögð

Þátturinn í gærkvöld vakti strax hörð viðbrögð - tveir hópar hafa þegar verið stofnaðir á Facebook þar sem fólk er hvatt til þess að sniðganga vörur frá Brúneggjum og fjórar verslanir, Bónus, Hagkaup  Krónan og Melabúðin, upplýstu á Facebook-síðum sínum að þær væru hættar að selja þessi egg.

Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í tíu fréttum Sjónvarps í gær að það væri óhugnanlegt til þess að vita að farið væri svona með dýr. „Ég trúi ekki öðru en að þetta sé undantekning [...] Mér finnst líka mjög alvarlegt út frá sjónarhorni neytenda að þeir skyldu ekki vera upplýstir um þetta.“

Mynd: RÚV / RÚV

Á bæði Facebook og Twitter jós fólk úr skálum reiði sinnar. Meðal þeirra sem lögðu orð í belg var Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík og höfundur Skaupsins í ár. „Ég hef keypt þessi ógeðslegu Brúnegg í langan tíma vegna þess að ég treysti þeim og þessari bjánalegu vottun.“ 

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lét sig einnig málið varða á Facebooksíðu sinni.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, sagði í fréttum RÚV í gær að umfjöllun Kastljóss um Brúnegg hefði verið sláandi og málið komi verulega á óvart. „Bændasamtökin að sjálfsögðu undir öllum kringumstæðum fordæma illa meðferð á dýrum, hún á ekki að líðast. Það er ljóst að reglur hafa verið brotnar hjá þessum framleiðenda,“ sagði Sindri.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands
 Mynd: ruv
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi