Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fjórar hænur leyfðar - engir hanar

12.04.2014 - 16:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í vikunni heilbrigðissamþykkt um hænsnahald í Reykjavík. Leyfilegt verður að hafa fjórar hænur en engan hana og hafa þarf myrkur hjá hænunum frá klukkan níu á kvöldin til sjö á morgnanna. Þá þarf hænsnabóndi í Reykjavík að þrífa hænsnakofann að lágmarki vikulega.

Fréttablaðið greindi frá drögum að þessari samþykkt í desember 2012 . Þeim hefur nú verið lítilega breytt og borgarráð samþykkti þau á fundi sínum á fimmtudag.

Fram kemur í bókun fulltrúa VG í heilbrigðisnefnd Reykjavíkur að meindýraeyðir Reykjavíkur hafi lagst gegn því að leyfa hænsnahald - hann óttaðist að hænsnahaldið myndi laða að meindýr. Í samþykkt heilbrigðisnefndar er sérstaklega kveðið á um að gera þurfi ráðstafanir til að tryggja að meindýr komist ekki í fóður. Til að fyrirbyggja að rottur komist í fóður verða ílát að vera að minnsta kosti 35 sm frá jörðu og 60 sm djúp.

Aðeins verður leyfilegt að hafa fjórar hænur en engan hana. Hænsnakofi fyrir fjórar hænur þarf að lágmarki að vera tveir fermetrar að stærð og kofinn verður að vera vel innan lóðarmarka, að lágmarki þrír metrar. Sá sem ætlar að vera með hænur þarf jafnframt að slökkva ljósin hjá hænunum eða hafa hjá þeim myrkur frá klukkan níu á kvöldin til sjö á morgnana til að fyrirbyggja ónæði vegna hávaða.

Lausaganga hænsna verður óhemil og eigandanum ber að koma í veg fyrir að hænsnahaldið valdi ónæði í umhverfinu. Ef hæna sleppur verður hænsnabóndinn að gera tafarlausar ráðstafanir til að handsama hana. Í samþykktinni segir að ef hænu sé ekki vitjað innan einnar viku frá handsömum sé leyfilegt að ráðstafa henni til nýs eiganda eða selja hana. Að öðrum kosti verður hún aflífuð.

Ekki verður auðvelt að fá leyfi til þess að hafa hænur í þéttbýli. Sækja þarf um leyfi til heilbrigðisnefndar og með þeirri umsókn þarf að fylgja skriflegt samþykki nágranna sem eiga aðliggjandi lóðir. Sá sem hefur gerst brotlegur við lög um velferð dýra á enga von um að fá leyfi fyrir hænsnahaldi sem nú hefur verið samþykkt.

[email protected]