Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fjölskyldan togar bæði heim og út

04.06.2015 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: RUV Arnar Páll
Bág kjör, veikt heilbrigðiskerfi og skortur á framtíðarsýn stjórnmálamanna. Þessar ástæður nefna þeir sem vilja flytja frá Íslandi eða hafa þegar gert það. Fjölskyldan á Íslandi togar í marga en Íslendingar í Noregi toga líka ættingja sína út. Óljóst er hvort önnur bylgja landflutninga er hafin.

 10 þúsund íslenskir farið, 20 þúsund erlendir komið

Fólk hefur alltaf flutt frá Fróni þegar kreppir að. Hátt í fjórðungur landsmanna yfirgaf til dæmis skerið í kringum aldamótin 1900 og fór til Vesturheims og eftir að síldin hvarf leituðu margir út fyrir landsteinana. Frá aldamótunum 2000 hafa 10.500 íslenskir ríkisborgarar flutt frá landinu umfram þá íslensku ríkisborgara sem snúið hafa heim frá útlöndum. Mun fleiri erlendir ríkisborgarar hafa hins vegar flutt til landsins en frá því eða tæplega 22 þúsund.

Jafngildir því að byggð leggist af á Vestfjörðum

Á fyrstu þremur árum eftir hrun voru brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta tæplega sjö þúsund, það jafngildir því að byggð hafi lagst af á Vestfjörðum eins og þeir leggja sig eða á öllu Norðurlandi-Vestra. Árið 2013 dró mjög úr fækkuninni, 3139 komu heim og 3175 fóru úr landi. Brottfluttir umfram aðflutta voru einungis 36. Svo virtist sem landflóttinn væri í rénun. Tölurnar frá því í fyrra sýna þó að þróunin hefur ekki snúist við. Það ár voru þeir Íslendingar sem yfirgáfu landið 760 fleiri en komu til þess. Þriðjungur þeirra íslensku ríkisborgara sem fluttu úr landi í fyrra fóru til Noregs, en þangað hafa flestir farið eftir hrun. Alls fóru 70% til Skandinavíu. Sömuleiðis komu 70% þeirra íslensku ríkisborgara sem fluttu til landsins frá Norðurlöndunum, flestir frá Danmörku eða 771.

Íslendingar á þrítugsaldri síður til baka

Langmest fækkar í hópi Íslendinga á þrítugsaldri. Í fyrra flutti 1041 Íslendingur á þrítugsaldri úr landi en 625 sneru heim. Næstmest fækkaði í hópi fólks á milli þrítugs og fertugs, 753 á fertugsaldri fóru úr landi en 525 sneru heim. 419 einstaklingar á fimmtugsaldri fluttu úr landi en 340 sneru heim. 220 íslendingar á sextugsaldri fluttu út í fyrra en 201 flutti heim. 

Fækkun íslenskra ríkisborgara var í fyrra mest á Austurlandi, hálft prósentustig og næst mest á Norðurlandi eystra, og Suðurnesjum, 0,33%. Inni í þessum tölum er þó ekki farandverkafólkið eða pendlararnir sem vinna tímabundið á Norðurlöndunum en eru með lögheimili á Íslandi. Umfang þess hóps er óþekkt en ljóst er að hann er stór. 

Stefnir í álíka fjölda og fyrstu ár eftir hrun

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafa 800 íslenskir ríkisborgarar yfirgefið landið en 430 snúið heim. Brottfluttir eru 370 umfram aðflutta. Ef straumurinn frá landinu verður jafnþungur út árið má búast við því að talan yfir brottflutta umfram aðflutta verði svipuð í ár og á árunum eftir hrun. Sumir hafa því velt því fyrir sér hvort á sé skollin önnur bylgja landflutninga frá Íslandi. Þeir sem hafi flutt út eftir hrun séu búnir að koma sér fyrir og taki nú á móti ættingjum og vinum. Gunnar Smári Egilsson, pistlahöfundur Fréttatímans, er einn þeirra. Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar gaf hins vegar lítið fyrir áhyggjur hans og sagði að fólki hefði vaxið kjarkur til að fara út til náms þar sem hagur þess hefði batnað, þá flytji sumir af hreinni og klárri ævintýralöngun.

Flutningar lítið rannsakaðir

Rannsóknir á flutningum Íslendinga eru af skornum skammti og sammælast fræðimenn og tölfræðingar um að það sé bagalegt. Lítið er vitað um ástæður þess að fólk flytur úr landi og sömuleiðis er lítið vitað um hversu margir hyggja á flutninga. Guðjón Hauksson, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands, segir aukninguna í ár og í fyrra ekki endilega óvenjulega eða til marks um að önnur bylgja landflutninga sé hafin. Hallfríður Þórarinsdóttir, mannfræðingur og forstöðumaður rannsóknarsetursins MIRRA, er heldur ekki tilbúin að fullyrða hvort hafin sé önnur bylgja eða ekki. Hún segir að oftast séu efnahagslegar forsendur fyrir flutningum Íslendinga. Það sem togi í séu hærri laun úti, styttri vinnuvika og meiri tími til samverustunda með fjölskyldunni, efnahagslegur stöðugleiki og heilbrigðiskerfi sem fúnkerar.

Vinnumiðlanir finna ekki fyrir „bylgjunni“

Eures, vinnumiðlun Evrópu hefur undanfarin ár staðið fyrir fundum um atvinnutækifæri á Norðurlöndum og að jafnaði sækja um hundrað manns hvern fund. Þá býður miðlunin upp á ráðgjöf fyrir þá sem íhuga flutninga. Gyða Sigfinnsdóttir, starfsmaður Eures vinnumiðlunar, segir að heimsóknum á vefsíðu Eures á Íslandi hafi fjölgað um 23% á milli áranna 2013 og 2014. Þá hafi þeim borist um 200 fleiri tölvupóstar árið 2014 en árið 2013. Vinnumiðlunin þjónar þó bæði Íslendingum sem hyggjast fara út og útlendingum sem vilja vinna hér og ekki hefur verið kannað hvort aukninguna megi frekar rekja til annars hópsins. Gyða segir að eftirspurnin eftir þjónustunni hafi verið nokkuð stöðug, hún finni ekki fyrir neinum stórkostlegum breytingum. Valdís Árnadóttir sem starfar hjá upplýsingaveitu Norðurlandaráðs, Norden, segist heldur ekki finna fyrir neinni stórkostlegri breytingu í líkingu við þá sem varð í hruninu. Fyrirspurnum frá Íslendingum hafi fækkað um 35% frá 2013 til 2014. Þær hafi verið 350 í fyrra en voru að jafnaði um þúsund þegar mest gekk á árin 2009 og 2010. Ástæðurnar gætu að sögn Valdísar verið margar. Það sé meira magn upplýsinga aðgengilegt á heimasíðunni en áður og því minni þörf á að spyrja. Þá sé hugsanlega meira um að Íslendingar beini fyrirspurnum sínum til annarra íslendinga sem þeir kannast við í Noregi. Íslendingar í Noregi reka til dæmis upplýsingasíðu og á Facebook er að finna hópa fyrir Íslendinga í hinum ýmsu löndum.

Íslendingar í Noregi ekki á einu máli

Um níu þúsund Íslendingar eru nú búsettir í Noregi en fjöldi þeirra tvöfaldaðist á árunum eftir hrun. Hallfríður segir að rannsóknir á búferlaflutningum almennt sýni að til þess að flytja þurfi flestir að hafa einhver tengsl við landið, einhver þarf að byrja og aðrir flytja í kjölfarið. Það gæti verið að gerast núna.

Ömmurnar á leiðinni til Noregs

Spegillinn spurði Íslendinga í Noregi hvort þeir upplifðu að ný landflóttabylgja væri brostin á. Svörin voru ólík. Sumir sögðu lítið hafa breyst, aðrir sögðust finna fyrir meiri áhuga frá fólki. Vinir og ættingjar þeirra sem fluttu fyrstir væru farnir að flytja. Þá væri nokkuð um að ömmur og afar væru að flytja á eftir börnunum sínum. Það passar við tölur Hagstofunnar en tæplega fimmtíu manns á sextugs og sjötugs aldri fluttu út umfram aðflutta í fyrra. Ein sagðist vera á leiðinni út og þekkja þónokkuð af fjölskyldufólki á þrítugs- og fertugsaldri sem stefndi að því að flytja út í haust. Einn sagðist hafa sannfæringu fyrir því að mun fleiri vildu en gætu. Það rímar við orð Guðbjartar Guðjónsdóttur, mannfræðings sem rannsakað hefur Íslendinga í Noregi. Hún segir að fólk þurfi ákveðið kapítal til að flytjast út, tengsl úti eða eftirsótta menntun. Annars harki það bara.

Fólk flytur aftur og aftur

Ingvar Örn Ingólfsson sagðist fá mikið af fyrirspurnum þessa dagana, Margir hafi verið að bíða eftir niðurstöðu verðtryggingarmálsins og kjaraviðræðnanna. Þá óttist sumir þeirra sem sent hafi honum fyrirspurnir að það stefni í nýtt hrun á Íslandi. Kona sem hafði samband við Spegilinn sagðist hafa flutt til Noregs til þess að sjá fjölskyldunni farborða, það gat hún ekki á Íslandi þrátt fyrir að hafa verið í fullu starfi og með háskólamenntun. Hún er einstæð móðir og segist gera nútímakröfur til lífsins. Dóttir hennar og tengdasonur hyggja líka á flutninga vegna framfærsluvanda og eru að leita að húsnæði í Noregi. Öll hafi þau misst aleiguna eftir hrun, orðið sár og móðguð en komist að því að það þýði ekki að sitja heima og kvarta. Menn verði að grípa til sinna ráða og lausnirnar sé ekki að finna á Íslandi. Hún segist finna fyrir gríðarlegri aukningu á fyrirspurnum frá fólki sem er að undirbúa flutning. Sumir séu að koma í annað eða þriðja sinn, heimþráin togi í fólk. Þegar heim er komið átti það sig á því að ekkert hefur breyst og fer aftur út. Það kosti helling að flytja svona á milli landa en fólk geri það samt.

Háskólanemar geti ekki beðið eftir tækifæri

Kona sem flutti til Noregs árið 2010 talar um bylgju. Margir sem hún þekki séu nýfluttir eða að flytja. Hún starfar hjá háskóla og hefur komið til Íslands til að kynna námsleiðir sem ekki eru í boði hérlendis. Áhuginn hefur stóraukist síðastliðinn ár og í fyrra sóttu 50 íslendingar um. Hún segist túlka það svo að þeir geti ekki beðið eftir tækifæri til að komast í burtu frá Íslandi. Hún segir að þegar kemur að húsnæði sé kerfið mun réttlátara í Noregi en á Íslandi og magnað að horfa upp á heildarlánsupphæð lækka frá fyrstu afborgun. Það sé þó vissulega erfiðara og dýrara að kaupa í þéttbýli og í dreifbýli vilji bankarnir frekar koma til móts við kaupendur. Húsnæðislán á Norðurlöndum voru borin saman í Spegli gærdagsins

Fólkið sem missti ekkert að fara

Maður sem flutti út í fyrra segir að það sé klárt mál að önnur bylgja flutninga sé hafin. Í fyrstu bylgjunni hafi fólkið sem missti vinnu og húsnæði eftir hrunið farið. Nú sé fólk á borð við hann fjölskyldu hans að fara, þau hafi ekkert misst og þau hjónin hafi bæði verið í góðu starfi á Íslandi. Hafi bara fengið nóg af því að borga og borga af húsnæðislánum og eignast aldrei neitt. Hann vilji ekki bjóða börnum sínum upp á það kerfi sem hann hafi lifað við í 20 ár. Skrefið sé auðvitað stórt og það þurfi hver að vega og meta hvort hann sé tilbúinn að fara frá vinum og fjölskyldu. Það sé þó ekki nema 2,5 tíma flug heim og það kosti svipað og að fljúga á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Flytja fyrr en ella

Kona sem býr í Noregi segist oft heyra sögur af því og sjá það í kringum sig að einn flytji og margir fylgi á eftir. Margir sem ætluðu að láta börnin klára grunnskólann á Íslandi hafi hætt við það og flutt fyrr en ella.

Ætluðu að vera tímabundið

Önnur kona sem hafði samband við Spegilinn segist hafa á tilfinningunni að margir þeirra sem fara til Noregs af efnahagsástæðum, eins og hún sjálf, hafi hugsað sér að vera þar tímabundið til að byrja með. Þar til ástandið á Íslandi lagist og þar verði hægt að sjá fjölskyldunni farborða með heiðarlegri vinnu. Það sé erfitt að vera án fjölskyldu og vina og hún hafi samviskubit vegna fullorðinna foreldra, barna og barnabarna sem hún skildi eftir. Henni finnst skorta á að umræðan á Íslandi sé raunsæ og segir að þeir sem stjórni landinu séu að reyna að afneita þeirri staðreynd að stórum hópi fólks sé ekki vært þar. Þeir geri lítið úr vandanum. 

Ævintýrafólk, námsmenn, öryrkjar og fólk í leit að betri kjörum

Læknir sem hafði samband sagði flesta flytja út vegna fjárhagsörðugleika eða til að stunda nám. Þá komi sumir út vegna velferðarkerfisins og hann sé stundum spurður að því hversu lengi þurfi að búa í Noregi til að fá norskar örorkubætur. Sumir leiti að ævintýrum, tilheyri hópi sem er óhræddur við að leita tækifæra á nýjum slóðum og söðla um. Hann sé þó fámennur. Loks séu það námsmenn.

Læknar í auknum mæli afhuga Íslandi

Hann er í sérnámi í bæklunarlækningum og segir breytingu hafa orðið á viðhorfi þeirra lækna sem hann þekkir. Eftir hrun hafi fólk verið brennt af bóluárunum og ekki hugsað um starf heima. Nokkru síðar fóru sumir heim en upplifun þeirra af samfélaginu og stjórn heilbrigðiskerfisins gerði það að verkum að margir hrökkluðust út aftur. Hann segir að þeir sem hafi orðið eftir erlendis og fylgst með kollegum sínum fara á milli hafi orðið landinu afhuga. Nýgerðir kjarasamningar hafi ekki bætt það ástand og verkföllin á LSH séu ekki til að lífga upp á stemmninguna. Hann segir aðra námsmenn sem hann þekki í Noregi vera í svipaðri stöðu, mest óvissa ríki hjá þeim sem eru í tækni- og fræðistörfum tengdum olíuiðnaði en eins og Spegillinn fjallaði um í gær er olíukrísa í Noregi og atvinnuleysi fer vaxandi.

Launaveislunni í Noregi lokið

Hann segir marga hafa komið ár sinni vel fyrir borð í Noregi, kaupmáttur sér þar betri en á Íslandi, þrátt fyrir verðlag og lífsgæðakapphlaupið ekki jafn öfgafullt. Hann segir þó að hann sjái ekki fram á aðra bylgju landflutninga. Launaveislunni sem hafi staðið yfir í Noregi sé lokið, farandverkamenn frá Eystrasaltslöndunum og Póllandi margir á leið heim. Mönnun á sjúkrahúsum sé farin að ganga betur og minni þörf sé á aðkeyptum vinnukrafti í gegnum starfsmannaleigur. Í Osló sé fasteignabóla en í olíubæjum sé fasteignaverð í falli. OECD hafi varað við yfirskuldsetningu norskra heimila, bankarnir láni undantekningalaust upp í 100% veð fyrir endurbótum á húsnæði eða ferðalögum til dæmis og margir norskir jafnaldrar hans séu skuldum vafðir. Það hringi óþægilegum bjöllum. Hann sagðist skilja óþreyju margra Íslendinga og sagði að frá sínum bæjardyrum séð væri tal íslenskra stjórnmálamanna um framtíðarsýn og áætlanir innantómt. Það sé þó ljóst að gósentíðin í Noregi verði ekki eilíf. 

Ekki vitað hverjir íhuga flutninga

Eftir því sem Spegillinn kemst næst hefur ekki verið rannsakað hverjir eða hversu margir hyggjast flytja af landi brott. Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups frá í mars hefur fjárhagur íslenskra heimila skánað aðeins frá því fyrir þremur árum. Staðan var þó sú að meirihluti heimila í landinu safnar skuldum eða nær endum saman með naumindum. Flestir þeirra sem leita til Umboðsmanns skuldara eru leigjendur og oftast er það ekki vegna uppsafnaðra skulda heldur vegna þess að þeir ná ekki endum saman og hafi ekki ráð á leigumarkaðinum. Spegillinn spurði meðlimi hóps leigjenda á Facebook hvort þeir hyggðu á landflutninga. Það stóð ekki á svörum. Ástæðurnar sem svarendur nefndu voru flestar efnahagslegar, fæstir þar nefndu ævintýri á nafn.

Hugsa um að fara alla daga

Sumir sögðust hafa íhugað að fara, sumir sögðust hugsa um það alla daga. Sumir töluðu af reynslu, voru nýkomnir heim. Þeir voru misánægðir með kjörin á Íslandi en sáttir við að geta notið samvista við fjölskylduna. Sögðu grasið ekki endilega grænna hinum megin, leiguverð ekki endilega lægra úti og matarverð ekki heldur. Bjórinn í Noregi fokdýran.

Sumt betra annað ekki

„Sumt er betra úti en bara alls ekki allt, fer líka mjög eftir lífsmynstri hjá fólki hvað sé hagstæðast hvar, fólk verður bara að finna hvað skiptir það máli og vega og meta út frá því en ekki einhverju öðru. Sjálf flutti ég heim vegna fjölskyldunnar og stuðnings en það er margt sem er bara ekkert verra hérna eða dýrara, sumt er meira að segja ódýrara allt eftir aðstæðum fólks, en annað að sjálfsögðu dýrara og óhagstæðara,“ segir kona sem flutti heim frá Danmörku í fyrra.

Önnur kona sem er nýflutt heim að utan sagði grasið ekki endilega grænna hinum megin og erfitt að koma undir sig fótunum fjárhagslega í nýju landi, sérstaklega ef fjölskyldan væri ekki til staðar. 

Bág kjör, óhagstæð lán

Þeir sem vildu fara sögðu margir ástæðurnar þær að kjörin hér væru bág sérstaklega fyrir námsmenn og barnafjölskyldur, húsnæðislán óhagstæð, erfitt að festa kaup á fyrstu íbúð, framtíðarhorfur slæmar, leigumarkaður óöruggur, leiga stærri útgjaldaliður en annars staðar á Norðurlöndunum og heilbrigðiskerfið veikt.

Námsmaður kominn með nóg

Snæfríður Guðmundsdóttir Aspelund, námsmaður, svaraði því til að hún og margir námsmenn sem hún þekkti ætluðu erlendis í framhaldsnám vegna bágrar stöðu námsmanna á Íslandi, fjárskorts háskólanna, stöðu heilbrigðiskerfisins, spillingar ríkisstjórnarinnar, bágrar stöðu barnafjölskyldna, stöðunnar á leigumarkaði, námslánakerfisins, atvinnuleysis og verkfallanna. Á hennar þriggja ára háskólagöngu hafi verkfall háskólastarfsmana tvisvar ógnað lokaprófum. Hún hafi misst vonina á að ástandið skáni í bráð og sagðist ekki viss um að námsmenn snúi aftur að námi loknu, ekki nema ástandið batnaði til muna.

Mottó Íslendinga: Íbúð eða háskólanám?

Annar námsmaður sagðist íhuga það, nám hennar væri langt og tímafrekt og hún vildi ekki skuldsetja sig, það gæti komið niður á barneignum. Staðan á landinu sé þannig að það þurfi að velja og hafna. Það sé orðið mottó landsins. Að mennta sig eða kaupa hús og íbúð. það sé ekki séns að fá allt. Þá sé ávinningur af því að mennta sig lítill hér á landi, erlendis væri menntun metin til launa.

Sjáum ekki hagvænlega framtíð fyrir börnin

Laufey Oddný Jónmundsdóttir tók undir með henni. „Um leið og annað okkar klárar námið erum við farin með börn og bú á meðan við sjáum ekki hagvænlega framtíð fyrir börnin hér er stefnan tekin á framhaldsnám erlendis," segir hún. Ríkisstjórninni gangi hægt, seint og illa að finna raunhæfa lausn fyrir almúgann, það sé engin ástæða til að vera hér þegar maður geti haft það betra annars staðar. Einstæð móðir sagðist vera á leiðinni út til Noregs, launin væru hræðileg, matur dýr og aðstæður einstæðra foreldra slæmar. Hún vilji geta boðið syni sínum mannsæmandi líf og það sé ekki hægt hérlendis, ekki lengur. Ein sagðist ætla að flytja út til að koma sér upp heimili, hún sjái ekki fyrir sér að geta gert það hér. Sumir sögðust vera fluttir út, eða á förum, að gefast upp eða komnir með upp í kok af spillingu og rugli. Einn sagðist þó halda í vonina. „Gefum stjórnvöldum tvö ár og sjáum svo til," skrifaði hann. Sumir sögðust myndu vilja fara ef þeir gætu, börn og peningar settu þar strik í reikninginn.

Fjölskyldu frekar en feitt launaumslag

Nokkrar konur sem búið höfðu í Danmörku til lengri tíma ræddu sína stöðu. Ein þeirra hefur búið í Danmörku í 14 ár og á þar fimm börn. Hún hefur lokið háskólanámi sínu og langar heim en sér sér ekki fært að flytja vegna bágra lífsgæða á Íslandi. „Það er glatað að búa í útlöndum og ala börnin sín upp í útlöndum en langa heim og komast ekki vegna eymdarástandsins sem ríkir á Íslandi," skrifar hún og bætir við að hún hafi prófað að koma heim í ár og það hafi gengið illa, hún sé enn að greiða niður þá skuld frá þeim tíma.

Æfingagjöld dýrari

Önnur segist hafa flutt heim frá Danmörku í desember með þrjú börn og sjái ekki eftir því. Hér njóti hún samvista við fjölskylduna. Þá séu lífskjörin hér ekki endilega verri en úti. Sú þriðja segist hafa flutt heim árið 2011 eftir níu ár í Danmörku og aldrei séð eftir þeirri ákvörðun. Hún er ósátt við kjörin en segist hafa kosið fjölskylduna framyfir feitara launaumslag. Fjórða konan sem búið hafði í Danmörku sagði kostnað sem fylgir börnum mun meiri hér en þar, svo sem æfingagjöld, námsgögn og fatnaður.