Vanessa Bryant hélt tilfinningaþrungna ræðu fyrir viðstadda en minningarathöfnin var einnig send út beint í sjónvarpi. Þetta var í fyrsta sinn sem hún kom opinberlega fram eftir hið hörmulega slys sem rændi hana dóttur og eiginmanni.
„Hann var ótrúlegur eiginmaður. Kobe elskaði mig meira en ég get nokkurn tímann tjáð eða komið orðum að,“ sagði Vanessa.
Bryant hjónin eignuðust þrjár aðrar dætur, Natalia, Bianca og Capri.
„Hann mun ekki geta leitt þær fram kirkjugólfið eða snúið mér á dansgólfinu. En ég vil að dætur mínar viti um og minnist þess einstaka manns, eiginmanns og föður sem hann var, manns sem vildi kenna framtíðarkynslóðum að verða betri og forðast sjálfur að gera sín mistök.“
Vanessa minntist einnig dóttur sinnar, Giönnu sem jafnan var kölluð Gigi, sem var aðeins 13 ára gömul og þótti mikið efni í körfubolta.
„Gigi var ótrúlega ljúf sál. Hún hefði líklega orðið besti leikmaður WNBA-deildarinnar. Ég fæ aldrei að sjá hana ganga fram kirkjugólfið, dansa við pabba sinn, dansa með mér eða eiga börn. Gianna hefði orðið frábær móðir,“ sagði Vanessa Bryant.
Svo ávarpaði hún Kobe beint:
„Elskan, sjá þú um Gigi. Við erum ennþá besta liðið. Hvíldu í friði og skemmtu þér á himnum þar til við hittumst aftur.“