Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölmiðlum stjórnarandstæðinga lokað

07.06.2019 - 01:10
epa04615725 Motorists drive on a motorway in Lagos, Nigeria, 11 February 2015. Nigeria is Africa's most populous country and the continents fast growing economy.  EPA/AHMED JALLANZO
Lagos, höfuðborg Nígeríu. Mynd: EPA
Tveimur fjölmiðlum í eigu stjórnarandstæðings var lokað í Nígeríu í dag. Eiganda fjölmiðlanna, Raymond Dokpesi, hefur lengi grunað að yfirvöld væru með fjölmiðla hans í sigtinu.

Fjölmiðlanefnd í Nígeríu segist hafa lokað á útsendingar AIT sjónvarpsstöðvarinnar og útvarpsstöðvarinnar RayPower vegna brota á lögum um ljósvakamiðla. Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að hún hafi fylgst með störfum miðlanna síðustu tvö ár vegna meintrar hlutlægni þeirra og fyirr að standast ekki fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart yfirvöldum. Er fjölmiðlunum gefið að sök að hafa borið á torg fréttir sem valda sundrung og reiði með áróðri gegn stjórnvöldum og fjölmiðlanefndinni. Því hafi hún ekki átt annan kost en að svipta stöðvarnar útsendingaleyfi fyrir að óhlýðnast tilmælum nefndarinnar. 

Dokpesi, eigandi fjölmiðlanna, er viðskiptajöfur og einn lykilmanna í PDP, einum stærsta flokki stjórnarandstæðinga í Nígeríu. Fyrr í dag sakaði hann nefndina um ofsóknir gegn fjölmiðlum sínum samkvæmt skipun Nígeríuforseta. 

Alþjóðasamtökin Fjölmiðlar án landamæra segja Nígeríu skipa 119. sæti af 180 hvað fjölmiðlafrelsi varðar. Fjölmiðlamönnum í landinu er oft hótað líkamlegu ofbeldi, og þeim neitað um upplýsingar frá opoinberum embættismönnum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV