Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjölmiðlanefnd sýknuð af kröfum 365

13.11.2018 - 12:32
Húsnæði 365 við Skaftahlíð
 Mynd: Fréttastofa RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í gær Fjölmiðlanefnd af kröfum 365 miðla, sem vildu hnekkja milljón króna sekt fyrir að birtar voru áfengisauglýsingar í tímaritinu Glamour í fyrra. 365 er gert að greiða allan málskostnað eða 800.000 krónur.

Deilt um hver bæri ábyrgð á auglýsingunum

Í júní í fyra komst fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að 365 miðlar hefðu brotið lög um fjölmiðla með birtingu á fimm heilsíðuauglýsingum í tímaritinu Glamour þar sem áfengi var auglýst. 365 og fjölmiðlanefnd deildu um hver bæri ábyrgð á auglýsingunum.  365 miðlar báru það fyrir sig að tímaritið væri á þeim tíma sem auglýsingarnar birtust gefið út af erlendum aðila og væri með skrifstofu í Bretlandi. Útgáfa tímaritsins félli ekki lengur undir íslenska lögsögu og það væri því ekki á forræði 365 að svara spurningum nefndarinnar um blaðið. Athugun fjölmiðlanefndar leiddi í ljós að hinn erlendi aðili var 365 Media Europe Ltd sem er nátengd 365 miðlum.

Fjölmiðlanefnd féllst ekki á þau sjónarmið og óskaði eftir staðfestingu á því að 365 miðlar á Íslandi gengjust við ábyrgð sinni á útgáfu tímaritsins. 365 ítrekaði þá að félagið væri ekki lengur útgefandi tímaritsins hér á landi. Öll erindi sem fjölmiðlanefnd beindi því til 365 vegna tímaritsins væru markleysa og nefndin hefði ekki lengur boðvald yfir tímaritinu.  

Fjölmiðlanefnd hafnaði þeim sjónarmiðum og sektaði fyrirtækið um eina milljón króna. Máli sínu til stuðnings nefndi nefndin meðal annars að ekkert benti til þess að ritstjóri tímaritsins hefði flutt til Bretlands heldur væri stór hluti ritstjórnar með vinnuaðstöðu og aðalskrifstofu hér á landi. 365 miðlar hefðu auk þess sent áskriftartilboð í tölvupósti á póstlista Glamour og valdir viðskiptavinir 365 fengið Glamour að gjöf í pósti. Þá væri 365 Media Europe Ltd skráð á sama heimilisfang og fleiri bresk félög sem virtust tengjast Ingibjörgu Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla.

365 miðlar stefndu í kjölfarið fjölmiðlanefnd og þess var krafist að ákvörðun fjölmiðlanefndar yrði ógild með dómi. Dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Dómurinn staðfestir úrskurð fjölmiðlanefndar

Í dómnum segir að óumdeilt sé að stefnandi sé fjölmiðlaveita sem hafi staðfestu hér á landi í skilningi laganna og efni sé miðlað til almennings hér á landi. Dómurinn telur ljóst að eignatengsl séu á milli 365 miðla og breska félagsins 365 Media Europe Ltd. Annað liggi ekki fyrir en að ritstjórnarlegar ákvarðanir og ákvarðanir um aðra þætti sem varði tímaritið hafi áfram verið teknar á Íslandi af ritstjórn sem væri íslensk og hefði starfsstöð hér á landi. Ekki sé því séð að rekstur tímaritsins hafi farið fram í Bretlandi.

Þá lítur dómurinn til þess að eftir að tilkynning Fjölmiðlanefndar barst 365 hefur fyrirtækið lýst því yfir opinberlega að Glamour sé í þeirra eigu og að 365 sé útgefandi þess. Að auki liggi fyrir gögn sem beri með sér að 365 hafi staðið að markaðssetningu Glamour. Dómurinn metur svo að 365 hafi verið sú fjölmiðlaveita sem starfrækti tímaritið þegar áfengisauglýsingarnar voru birtar og að fjölmiðlanefnd hafi því réttilega sektað 365 miðla. Fjölmiðlanefnd er sýknuð af kröfum 365 miðla og er 365 gert að greiða 800.000 krónur í málskostnað.  

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV