Fjölgun íbúða og efling atvinnulífs mikilvæg

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Húsnæðismál eru ofarlega í hugum margra íbúa Grundafjarðarbæjar. Þetta segir bæjarstjóri sveitarfélagsins. Fjölgun íbúðahúsnæðis og efling atvinnulífs er nauðsynleg forsenda þess að fjölga íbúum í bænum. 

Tveir listar bjóða fram til komandi sveitarstjórnarkosningum í Grundarfjarðarbæ. D-listi Sjálfstæðisfélagsins í Grundarfirði og óháðir og Samstaða - listi fólksins. Oddviti D-listans er Jósef Ó. Kjartansson. Samstöðu leiðir Hinrik Konráðsson. 

Húsnæðis - og atvinnumál í brennidepli

Húsnæðisskortur er í bænum og íbúarnir vilja að eftirspurninni verði mætt. „Þetta er eins og víða úti á landi, erfitt að byggja nýtt húsnæði því kostnaðarverðið er oft og tíðum hærra en söluverð," segir Þorsteinn Steinsson bæjarstjóri. 

Atvinnumálin eru líka ofarlega á baugi. Kallað er eftir auknum fjölbreytileika starfa svo það sé möguleiki fyrir fleira fólk að fá störf við sitt hæfi. Þorsteinn segir að þannig sé líklegra að ungt fólk sem er að mennta sig sjái frekar tækifæri í að koma til Grundarfjarðar að námi loknu. „Það er mjög mikill áhugi hjá fólki að flytja út á landsbyggðina og meðal annars til okkar," segir hann.

Atvinnu- og húsnæðismálin haldast þó í hendur. „Takist að koma byggingaráformum áfram tel ég að íbúum geti fjölgað. Það er ekki spurning,” segir Þorsteinn. Íbúafjöldi í bænum hefur haldist nokkuð stöðugur síðustu ár, í kring um 900 manns. 

Afslættir og frí lóðargjöld

Ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar til að hvetja til frekari uppbyggingar.
„Með því að gefa verulega afslætti og jafnvel frí lóðargjöld hefur leitt til þess að búið er að sækja um og úthluta töluvert mörgum lóðum,” segir hann og bætir við að byggingarframkvæmdir séu hafnar í einhverjum tilfellum. 

Skóla- og velferðarmál skipta máli

Þorsteinn segir að íbúar horfi til fleiri mála. Mikil áhersla er lögð á góða umgjörð í kring um leik- grunnskóla, málefni aldraðra og öryrkja eru fólki einnig mikilvæg, sem og önnur opinber þjónusta. 

Stór verkefni bíða næstu bæjarstjórnar

Helsta atvinnugreinin í Grundarfjarðarbæ er sjávarútvegur og tengdar þjónustugreinar. Töluverð uppbygging á sér stað í fiskvinnslunni á svæðinu. Mikil gróska er einnig í ferðaþjónustu og segir Þorsteinn íbúa sjá atvinnutækifæri í því. Áform eru um að stækka höfnina þannig hægt sé að taka á móti stærri skemmtiferðaskipum og þjónusta stór fiskiskip. Áætlað er að framkvæmdunum verði dreift á næstu þrjú ár. Það verður því verkefni næstu bæjarstjórnar.

Samstarfið gengið vel

Sömu flokkar og bjóða nú fram hafa verið við stjórnvölinn á líðandi kjörtímabili. Samstarfið hefur gengið vel að sögn Þorsteins. 
„Menn hafa komið sér saman um hin ýmsu mál og það hefur verið samstaða," segir hann. „Nútímastjórnmál snúast ekki um að vera á móti hvort öðru heldur að reyna að spila saman og finna bestu leiðirnar fyrir samfélagið á hverjum tíma.”

Þorsteinn telur stærstu áskorun þeirra sem taka við á næsta kjörtímabili sé að skapa grundvöll fyrir áhugasama aðila að byggja íbúðarhúsnæði á svæðinu og styðja við atvinnuuppbyggingu. Það sé einnig áskorun að veita bestu mögulegu þjónustu en hafa einnig stíft aðhald með fjármálum bæjarins.

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi