Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölga hjúkrunarrýmum um 200 á tveimur árum

21.01.2019 - 21:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Framkvæmdir og undirbúningur við 14 hjúkrunarheimili standa nú yfir, bæði til að fjölga rýmum og bæta aðbúnað rýma sem þegar eru tilbúin. Á næstu tveimur árum stendur til að fjölga rýmum um tæp 200. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Ellerts B. Schram, þingmanns Samfylkingarinnar.

Flest nýju rýmin verða á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er mest, að því er fram kemur í svarinu, sem birt hefur verið á vef Alþingis. Spurning þingmannsins til ráðherra var um þær aðgerðir sem ráðherrann telji brýnt að grípa til á næstu misserum í ljósi hækkandi hlutfalls aldraðra á komandi árum og kalli á mörg verkefni af hálfu hins opinbera. Í svari ráðherra kom jafnframt fram að verið væri að undirbúa byggingu á 206 hjúkrunarrýmum til viðbótar sem áætlað er að verði tilbúin innan fjögurra ára.

Áhersla er lögð á að styðja fólk til búa á eigin heimili með þeim stuðningi og heilbrigðisþjónustu sem það þarf, segir í svari ráðherra. Fjölgun og uppbygging hjúkrunarrýma hafi verið í forgangi en mikilvægt sé að styrkja aðra þjónustu sem stuðli að því að fólk geti búið heima. Heimahjúkrun sé einn liður í slíkri þjónustu og nú um áramót hafi verið ákveðið að veita aukalega 130 milljónum til að efla hana.