Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fjöldi staðarblaða hverfur af markaði

25.07.2015 - 20:20
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyri vikublað
Blaðaútgáfan Fótspor, sem gefið hefur út tíu staðarblöð og sjávarútvegsblað að auki, hefur hætt útgáfu. Frá þessu greinir Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar vikublaðs á Facebook-síðu sinni.

Blað hans er eitt þeirra sem Fótspor hefur gefið út og hætta nú útgáfu. Meðal annarra blaða útgáfunnar má nefna Reykjavík vikublað og blöðin Hafnarfjörð, Kópavog og Vestfirði svo nokkur séu nefnd. Björn segir að sér hafi borist tölvupóstur frá útgáfunni í dag þar sem honum hafi verið tilkynnt að öll útgáfa Fótspors legðist niður.

„Því er ekki að leyna að litlir fjárfestar, leikmenn og fagfólk hefur þegar haft samband við mig á þeim skamma tíma sem liðinn er síðan landsfjölmiðlar sögðu fréttina af örlögum Fótspors ehf. fyrr í dag," segir Björn á Facebook-síðu sinni. „Ýmsir hafa lýst áhuga á að stofnsetja nýtt blað á gagnrýnum grunni í stað Akureyrar vikublaðs. Ég útiloka ekki aðkomu að nýju gagnrýnu staðarblaði og fagna þeim hugsjónum og eldmóð sem fram hefur komið í samtölum við fólk á tímum þar sem mikil áhrif í fjölmiðlaheiminum hafa færst á æ færri hendur, í blóra við heilbrigt lýðræði."

Ámundi Ámundason, ábyrgðamaður blaða og auglýsingastjóri Fótspors ehf, staðfesti í samtali við Vísi í kvöld að Vefpressan hefði keypt útgáfuréttinn á blöðum fyrirtækisins. Hvort útgáfu þeirra verður haldið áfram hefur ekki fengist staðfest. 

Ingimar Karl Helgason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs og staðarblaðanna Kópavogs og Hafnarfjarðar, var erlendis ásamt fjölskyldu sinni þegar fréttastofa náði sambandi við hann í kvöld. Hann sagðist ekki hafa átt von á þessum fréttum og fengið fyrstu spurnir af þeim í samtali við blaðamann fyrr í dag. Hann hafi þó fengið staðfest að ritstjórar og aðrir starfsmenn útgáfunnar hafi fengið tölvupóst um að útgáfu Fótspors yrði hætt, en sjálfur hafi hann ekki séð póstinn þar sem hann væri utan netsambands.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV