Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjöldi lést eftir framboðsfund Buharis

13.02.2019 - 01:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Nokkrir eru látnir eftir að hafa troðist undir á framboðsfundi Muhammadu Buhari, forseta Nígeríu, í hafnarborginni Port Harcourt í dag. Þá eru margir slasaðir að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC.

Fjöldi fólks var saman kominn á leikvangi í borginni, þar sem Buhari hélt framboðsræðu laust upp úr klukkan tvö í dag. Hann stefnir á að sitja sitt annað kjörtímabil í embætti forseta, þegar gengið verður til kosninga á laugardag.

Flest fórnarlambanna létu lífið þegar þau voru að yfirgefa leikvanginn. Fjöldi fólks reyndi að troðast út á sama tíma til þess að ná Buhari þar sem hann var á leið frá honum. Margir duttu þar sem fólkið reyndi að þvinga sér leið í gegnum hlið sem var aðeins opið að hluta, og tróðust undir.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV