Hann segist hallast að því að framþróunin verði minni ef karlmenn einblína aðeins á skaðann eða áhrifin sem karlmennskan hefur á konur. „Það er augljóslega mjög mikilvægt og eitthvað sem gerði það að verkum að ég fékk áhuga á efninu til að byrja með,“ segir hann og vill meina að til þess að hegðun manna breytist verði þeir að vera meðvitaðir um áhrif karlmennskunnar á eigið líf, því þá verði hvatningin til breytinga mun meiri. „Við erum öll drifin áfram af eigin hagsmunum á einn eða annan hátt, og í vinnu minni legg ég áherslu á það.“ Hann segist reyna í áðurnefndri bók, Love and War: How Militarism Shapes Sexuality and Romance, að fá karlmenn til að sjá áhrif karlmennskunnar á eigið líf, sjá hvers konar áhrif hún hefur til dæmis á sambönd þeirra. „Ef mönnum finnst þeir á einhvern hátt æðri eða betri en konur, hefur það óneitanlega gríðarleg áhrif á gæði sambandsins,“ segir Digby. „Þessi skoðun þarf ekki endilega að vera meðvituð hjá mönnum, hún getur verið mjög ómeðvituð og birst í setningum eins og „þú gerir þetta eins og stelpa“.“
Forseti Bandaríkjanna grótesk birtingarmynd karlmennskunnar
En er hann bjartsýnn á það sem er að gerast í samfélaginu?
„Að einhverju leyti er erfitt að vera bjartsýnn,“ segir hann. Hann tekur Bandaríkin sem dæmi og segir frá þeirri birtingarmynd karlmennskunnar sem nú gegnir þar æðsta embættinu. „Hann er eins konar hörð grótesk birtingarmynd karlmennskunnar – persóna sem er kúgari og hrekkjusvín, er sléttsama um tilfinningar eða þjáningar annnarra, sem og skaðlegar afleiðingar gjörða sinna. Þegar við sjáum slíkt og vitum af stórum hópi fylgjenda þess háttar leiðtoga sem lofsyngja einmitt það sem við myndum túlka sem eitraða karlmennsku, er erfitt að vera vongóður,“ segir Digby en bætir þó við að hann sé bjartsýnn þrátt fyrir það. „Samfélagið hefur breyst, ýmiss konar stofnanir og stoðir sem hafa ýtt undir ímynd karlmennskunar, hafa breyst. Hlutverk og staða konunnar hefur einnig breyst gríðarlega á síðustu áratugum.“ Hann ítrekar að lokum að við þurfum að vera meðvitaðri um brenglaðar, úreltar hugmyndir um hvað það þýði að vera kvenmaður og karlmaður - og einbeita okkar að því að vera bara manneskjur.
Tom Digby var ítarlegu viðtali í Lestinni á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í heild hér að ofan.