Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjöldi karla upplifir #metoo sem árás

Mynd: Heimspekistofnun Háskóla Ísla / Heimspekistofnun Háskóla Ísla

Fjöldi karla upplifir #metoo sem árás

12.04.2018 - 16:33

Höfundar

„Til þess að hegðun manna breytist verða þeir að vera meðvitaðir um áhrif karlmennskunnar á eigið líf,“ segir bandaríski heimspekingurinn Tom Digby en hann hefur kennt og skrifað um karlmennsku, kyn og heimspeki undanfarin 30 ár.

Digby hélt fyrirlestur um óstöðugleika karlmennskunnar í Háskóla Íslands fyrir viku en hann segir í samtali við Lestina á Rás 1 að krísa karlmennskunnar hafi staðið yfir lengi þó samfélagið sé fyrst núna að veita henni athygli. „Konur eru að vakna upp og verða meðvitaðri fyrir áhrifum karlmennskunar. Karlmennskan er ekki aðeins skaðleg konum heldur einnig körlum,“ segir Digby og bætir því við að í Bandaríkjunum virðist fjöldi karlmanna upplifa metoo byltinguna sem árás á sig. Hann vonast þó til að karlmenn átti sig á því með tímanum að það sé þeim í hag að rýna í karlmennskuna með gagnrýnum hætti. „Ég lýsi þessu sem svo að karlmennskan sé menningarlega forrituð í mennina. Menn sem eru menningarlega forritaðir til að vera harðir af sér eða sterkir og eiga það til að vera þannig út lífið, burtséð frá aðstæðum, burtséð frá því hvort slíkrar hegðunar sé þörf eða ekki.“ segir Digby.

Mynd með færslu
 Mynd: Heimspekistofnun Háskóla Ísla

Í kjölfar metoo-byltingarinnar hafa spjótin beinst að úreltri, og oftar en ekki, skaðlegri ímynd karlmennskunnar. Síðasta mánuðinn hefur herferðin #karlmennskan verið áberandi hér á landi. Þar eru karlmenn hvattir til að deila reynslusögum á samfélagsmiðlum um aftrandi áhrif karlmennskunnar en umræðan er ekki aðeins í brennidepli hér á landi.

Fjöldinn allur af pistlum og greinum er skrifaður í erlendum miðlum. Indverski rithöfundurinn Pankaj Mishra skrifaði til að mynda í síðasta mánuði áhrifamikla grein um krísu karlmennskunnar í The Guardian. „Karlmenn eru jafn miklir fangar staðalímynda kynjanna og konur,“ skrifar hann og vísar síðan í þekkt skrif Simone de Beauvoir: „Maður fæðist ekki kona, heldur verður kona,“ en Mishra vill meina að hún hefði geta skrifað slíkt hið sama um karlmenn. Rithöfundurinn, leikarinn og leikstjórinn Michael Ian Black skrifaði pistil í The New York Times sem hann titlar „Strákunum líður ekki vel,“ Þar tengir hann þar byssukúltúrinn í Bandaríkjunum við brenglaðar karlmennskuímyndir en sláandi meirihluti árásarmanna í skotárásunum Vestanhafs eru karlmenn, eða 98%.

Skoðar „herkarlmennsku“ í bók sinni 

Í bókinni Love and War: How Militarism Shapes Sexuality and Romance vísar Digby í „herkarlmennsku“ (e. warrior masculinity). „Það sem einkennir þessa gerð karlmennsku er að starfsemin felur í sér fórnir í stað réttinda. Menn fórna augljóslega ástríðum sínum í stríði. Þeir fórna lífi sínu en einnig tilfinningalífinu því þegar athafnir þínar hafa í för með sér hættu þarftu að bæla niður þjáninguna. Til þess að pynta og drepa í stríði bælirðu einnig niður samhyggð og væntumþykju,“ segir hann og bætir því við að undir þannig kringumstæðum séu menn ekki aðeins skaðlegir öðrum heldur einnig sjálfum sér. „Karlmenn eru þrisvar til fjórum sinnum líklegri en konur til að fremja sjálfsmorð. Það er eitthvað sem ætti að vekja fólk til umhugsunar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Heimspekistofnun Háskóla Ísla

Hann segist hallast að því að framþróunin verði minni ef karlmenn einblína aðeins á skaðann eða áhrifin sem karlmennskan hefur á konur. „Það er augljóslega mjög mikilvægt og eitthvað sem gerði það að verkum að ég fékk áhuga á efninu til að byrja með,“ segir hann og vill meina að til þess að hegðun manna breytist verði þeir að vera meðvitaðir um áhrif karlmennskunnar á eigið líf, því þá verði hvatningin til breytinga mun meiri. „Við erum öll drifin áfram af eigin hagsmunum á einn eða annan hátt, og í vinnu minni legg ég áherslu á það.“ Hann segist reyna í áðurnefndri bók, Love and War: How Militarism Shapes Sexuality and Romance, að fá karlmenn til að sjá áhrif karlmennskunnar á eigið líf, sjá hvers konar áhrif hún hefur til dæmis á sambönd þeirra. „Ef mönnum finnst þeir á einhvern hátt æðri eða betri en konur, hefur það óneitanlega gríðarleg áhrif á gæði sambandsins,“ segir Digby. „Þessi skoðun þarf ekki endilega að vera meðvituð hjá mönnum, hún getur verið mjög ómeðvituð og birst í setningum eins og „þú gerir þetta eins og stelpa“.“

Forseti Bandaríkjanna grótesk birtingarmynd karlmennskunnar 

En er hann bjartsýnn á það sem er að gerast í samfélaginu?

Að einhverju leyti er erfitt að vera bjartsýnn,“ segir hann. Hann tekur Bandaríkin sem dæmi og segir frá þeirri birtingarmynd karlmennskunnar sem nú gegnir þar æðsta embættinu. „Hann er eins konar hörð grótesk birtingarmynd karlmennskunnar – persóna sem er kúgari og hrekkjusvín, er sléttsama um tilfinningar eða þjáningar annnarra, sem og skaðlegar afleiðingar gjörða sinna. Þegar við sjáum slíkt og vitum af stórum hópi fylgjenda þess háttar leiðtoga sem lofsyngja einmitt það sem við myndum túlka sem eitraða karlmennsku, er erfitt að vera vongóður,“ segir Digby en bætir þó við að hann sé bjartsýnn þrátt fyrir það. „Samfélagið hefur breyst, ýmiss konar stofnanir og stoðir sem hafa ýtt undir ímynd karlmennskunar, hafa breyst. Hlutverk og staða konunnar hefur einnig breyst gríðarlega á síðustu áratugum.“ Hann ítrekar að lokum að við þurfum að vera meðvitaðri um brenglaðar, úreltar hugmyndir um hvað það þýði að vera kvenmaður og karlmaður - og einbeita okkar að því að vera bara manneskjur.  

Tom Digby var ítarlegu viðtali í Lestinni á Rás 1. Hlusta má á viðtalið í heild hér að ofan.