Fjöldi íbúa mótmælir leið R um Gufudalssveit

14.01.2019 - 11:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarstjóra Reykhólahrepps var í morgun afhentur undirskriftalisti með 95 nöfnum þar sem því er mótmælt að svokölluð leið R fyrir Vestfjarðaveg um Gufudalssveit verði valin fyrir aðalskipulag sveitarfélagsins.

Bb.is greinir frá.

Um 60 undirskriftir íbúa í sveitarfélaginu

Kristján Þór Eberneserson, bóndi á Stað í Reykhólahreppi, er einn þeirra sem söfnuðu undirskriftunum. Hann segir að á listanum séu tveir þriðju íbúar í hreppnum og þriðjungur íbúar sem eru ekki með lögheimili í sveitarfélaginu en eiga fasteign eða jörð, eða eru með rekstur í sveitarfélaginu. Undirskriftunum var safnað á fjórum sólarhringum en áætlað er að sveitarstjórn taki ákvörðun um leiðarval Vestfjarðavegar um Gufudalssveit á sveitarstjórnarfundi á miðvikudaginn. 

Ekki endilega fylgjandi leið Þ-H

Kristján leggur áherslu á að þeir sem skrifuðu undir eru á móti leið R, um Reykhóla og með brú yfir Þorskafjörð, en eru ekki endilega fylgjandi Þ-H leiðinni um Teigsskóg. Nokkur fjöldi íbúa sé á þeirri skoðun að leið D2 með jarðgöngum undir Hjallaháls sé vænlegasta leiðin um Gufudalssveit en ljóst er að hún er mun dýrari kostur en leið Þ-H um Teigsskóg. 

Vildu láta kanna leið með brú yfir Þorskafjörð

Tæpt ár er síðan 52 skrifuðu undir undirskriftalista, sem var skilað inn til sveitarstjórnar Reykhólahrepps, þar sem farið var fram á að sveitarstjórn tæki til skoðunar svokallaða leið A1 með brú yfir Þorskafjörð, eins og leið R gerir ráð fyrir.

Íbúar í Reykhólahreppi eru um 260 manns. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi