Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fjöldi fólks fóðrar hrafninn

06.02.2017 - 14:00
Margir bera út æti fyrir hrafninn. Á Ísafirði er það útbreidd hefð og íbúar telja að honum sé jafnvel gefið meira en þörf er á. „Hvað gerir maður ekki fyrir svangan fugl?“ segir fuglavinur sem fæðir hrafninn á Ísafirði. Hún telur að hröfnum hafi fjölgað á Ísafirði þótt þeim hafi fækkað á landsvísu.

Oft er haft orð á því hve mikið sé af hrafni á Ísafirði. Hrafninn er þó á lista yfir fugla í yfirvofandi hættu hjá Náttúrufræðistofnun - vegna þess að honum hefur fækkað á landsvísu.

„Honum hefur fjölgað mikið síðan að ég var krakki hérna. Maður verður mun meira var við hann. Núna er hann meira úti um allan bæ. Af hverju, hvort það sé vegna þess að það eru margir sem gefa honum hérna á Ísafirði?“ segir Jóna Símonía Bjarnadóttir, sagnfræðingur og fuglavinur.

Jóna Símonía er ein þeirra sem fóðrar hrafninn og býður honum upp á daglegt brauð en stundum líka kjötafganga og tólg. „Hrafninn á sér náttúrlega svo mikinn sess í sögunni okkar og allar þessar þjóðsögur. Guð launar fyrir hrafninn og allar þessar sögur í kringum hversu hrafninn er klókur. En fyrir mér en hann bara svo skemmtilegur.“

Ekki eru allir jafn hrifnir af því að krumma sé gefið. „ Ég held að fólk geri sér ekki grein fyrir því hvað það eru margir sem að gefa hröfnunum,“ segir Sigríður Gísladóttir, dýralæknir og íbúi á Ísafirði. Hún gaf einu sinni hröfnunum en gerir ekki lengur. Hún segir að það séu ekki bara hrafnar sem fara í ætið heldur einnig hundar og kettir sem og mávar, þá telur hún að mikið framboð af æti geti viðhaldið nagdýrastofnum. Ætinu fylgi svo óþrifnaður.  „Af því að hann er svo klár. Þegar hann er kominn með nóg þá treður hann því sem er eftir undir bárujárnið á þakinu og geymir það til einhverri megurri daga.“

Fuglafræðingur hjá Náttúrfræðistofnun mælir með því að hrafninum sé ekki gefið meira en hann torgar. „Eflaust er verið að fóðra hann meir en þörf er á. En hvað gerir maður ekki fyrir svangan fugl eða þann sem maður heldur að sé svangur,“ segir Jóna Símonía.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður