Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjöldamorðingi skiptir um skoðun og játar

26.03.2020 - 01:35
Mynd með færslu
Fórnarlambanna minnst í almenningsgarði í Christchurch. Mynd:
Fjöldamorðinginn sem var 51 að bana í tveimur moskum í Nýja Sjálandi í fyrra játaði í dag sök í öllum ákæruatriðum. Hann hafði áður neitað sök vegna 51 morðs, 40 morðtilrauna og fyrir að fremja hryðjuverk. Engar ástæður voru gefnar upp um hvers vegna maðurinn skipti um skoðun. 

Játningin þýðir að ekki verður réttað yfir manninum, Brenton Tarrant. Yfirvöld óttuðust að hann ætlaði að nýta réttarhöldin til þess að dreifa rasískum skoðunum sínum. Dómarinn Cameron Mander sagði að dómur yfir Tarrant verði felldur þegar fjölskyldur fórnarlamba og þeir sem lifðu árásirnar af geta komið í dómssal. Það verður í það minnsta ekki næstu fjórar vikurnar á meðan útgöngubann er í gildi í landinu. 

Aðstandendum létt

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, sagði játningu Tarrants vera létti fyrir marga aðstandendur fórnarlamba hans. Að sögn AFP fréttastofunnar var þungu fargi létt af samfélagi múslima í Nýja Sjálandi við fregnirnar. Réttarhöldin hefðu mögulega orðið löng, og aðstandendur fórnarlamba orðið að hlýða á lýsingar atburða í smáatriðum. Farid Ahmed, sem missti eiginkonu sína Husna í árásinni, sagðist vera búinn að biðja fyrir Tarrant og hann hafi tekið rétta ákvörðun. Hann segist ánægður með að Tarrant telji sig sekan, það sé skref í rétta átt.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV