RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Fjölbreytt vetrardagskrá RÚV kynnt

Mynd: RÚV / RÚV
Vetrardagskrá RÚV hefur verið kynnt og er aðgengileg á nýjum kynningarvef. Í dagskrá vetrarins kennir ýmissa grasa og þó engar stórvægilegar breytingar séu á dagskránni þá má sjá ýmsar áherslubreytingar.

Í öllum miðlum er menningarefni í öndvegi, áhersla er á innlent gæðaefni og þjónusta við börn verður stórbætt, m.a. með nýjum vef, KrakkaRÚV. Þá hefur starfsemi á landsbyggðinni verið efld.

Smelltu hér og kynntu þér dagskrá RÚV 2015-2016

 

Sjónvarpið

Í sjónvarpi er enn lögð aukin áhersla á innlent gæðaefni af ýmsu tagi og menningarefni er fyrirferðameira en áður. Boðið verður upp á íslenskt leikið efni öll sunnudagskvöld í vetur, þar ber fyrst að nefna nýjar sjónvarpsþáttaraðir með Ófærð eftir Baltasar Kormák í broddi fylkingar. Þá býður RÚV upp á fjölda nýrra íslenskra kvikmynda sem verða frumsýndar í sjónvarpi en þeirra á meðal eru Hrútar, Hross í oss og París norðursins. Að auki verður boðið upp á ýmsar gamlar perlur sem hafa verið hreinsaðar og bættar með nýrri tækni, má þar nefna Hrafninn flýgur og Með allt á hreinu. Á sunnudögum í nóvember og desember fær Halldór Laxness veglegan sess þegar sýndar verða myndir byggðar á verkum Nóbelsskáldsins, allar í nýjum útgáfum. Í vetur verður boðið upp á fjölda nýrra þáttaraða en meðal þeirra eru Rætur – þættir um nýja Íslendinga, Toppstöðin – þáttaröð þar sem sjónum er beint að frumkvöðlum landsins, Pokk- og Rokksaga Íslands þar sem tónlistarsaga síðustu áratuga er rakin í tali og tónum, Reimleikar – þáttaröð um draugatrú, Tónahlaup – þættir um tónlistarmenntun, Eyðibýli – sem segir sögurnar á bak við merkilegustu eyðibýli landsins, Stóra sviðið eru þættir um sköpunarferli leikarans, Vikan með Gísla Marteini, Spaugstofan í 30 ár ofl. ofl.  Föst menningarumfjöllun undir stjórn Brynju Þorgeirsdóttur færist á besta tíma í sjónvarpi inn í Kastljósið. Annáluðustu heimilisvinirnir í dagskrá RÚV halda áfram, s.s. Landinn, Kiljan, Gettu betur, Útsvar og Hraðfréttir auk þess sem Ísþjóðin, Útsvar og Orðbragð snúa aftur. Boðið verður upp á veglega hátíðardagskrá um jól og páska, auk þess sem boðið verður upp á beinar útsendingar og upptökur frá völdum menningar- og gleðiviðburðum. Einn af stærri viðburðum komandi vetrar er að þá verða liðin þrjátíu ár frá því að Íslendingar tóku í fyrsta skipti þátt í Eurovision. Á komandi ári 2016 renna síðan upp þau merku tímamót að 50 ár verða liðin frá því Íslendingar eignuðust eigin sjónvarpsstöð, Ríkissjónvarpið.

RÚV kappkostar að bjóða upp á fjölbreytt erlent gæðaefni úr öllum áttum; vandað leikið efni, fræðandi og upplýsandi heimildaþætti og þáttaraðir sem varpa nýju og skýrara ljósi á umheiminn. Meðal markverðra þáttaraða sem boðið verður upp á í vetur eru ný þáttaröð af hinum sænsk-danska sakamálaþætti  Broen, hin margumtalaða breska þáttaröð Poldark sem skartar íslensku leikkonunni Heiðu Rún Sigurðardóttur, Bedraget sem er nýjasta dramað úr smiðju danska ríkissjónvarpssins DR, House of Cards og Downton Abbey. Úrval heimildamynda er fjölbreytt en meðal þeirra íslensku eru Öldin hennar sem gerð er í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, Óli Prik, um Ólaf Stefánsson handboltagoðsögn og Vikingo, síðasta mynd heimildagerðarmannsins Þorfinns Guðnasonar og meðal erlendra þátta og þáttaraða eru ný þáttaröð David Attenborough  Birds of Paradise, The Sixties, bandarísk stórvirki sem spannar markverðustu heimsviðburði 7. áratugar síðustu aldar og Women who Made America.

Venju samkvæmt verður boðið upp á fjölbreytt barnaefni hjá RÚV. Stundin okkar hefur nú sitt fimmtugasta starfsár á RÚV. Eins og síðustu tvö ár er það undir stjórn Góa sem opnar tjöldin í Stundarleikhúsinu. Ævar vísindamaður heldur áfram að fræða okkur um heiminn á stórskemmtilegan hátt, Skólahreysti heldur áfram og ný þáttaröð um íþróttaiðkun ungmenna hefur göngu sína. Auk þess er boðið upp á tugi erlendra þáttaraða fyrir börn í vandaðri íslenskri talsetningu.

Íþróttaveturinn verður að auki einn sá viðburðaríkasti í sögu sjónvarpsins. Við hefjum veturinn á risaleikjum hjá kvenna- og karlalandsliðum okkar í fótbolta, fylgjumst grannt með gengi karlalandsliðs okkar í körfubolta sem tekur í fyrsta sinn þátt í Evrópumeistaramóti og fylgjum fimleikahetjum okkar á Norðurlandamót í hópfimleikum í nóvember. Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu verða í eldlínunni á EM í janúar og síðast en ekki síst þá verðar sumarólympíuleikarnir haldnir í Ríó í Brasilíu og mun RÚV að sjálfsögðu gera þeim ríkulega skil, einkum og sér í lagi afreksfólkinu okkar sem tekur þar þátt.

Rás 1

Rás 1 er einn helsti burðarás í starfsemi Ríkisútvarpsins og einstök í hópi íslenskra útvarpsstöðva. Engar stórtækar breytingar eru boðaðar í starfsemi Rásar 1 á árinu en nokkrar áherslubreytingar. Á síðasta ári var frumflutningur aukinn og áfram er haldið á sömu braut á nýju starfsári. Tónlistarþáttum fjölgar, menningarumfjöllun er efld og áfram er bætt í starfsemi Útvarpsleikhússins. Nýir metnaðarfullir dagskrárliðir eru kynntir til sögunnar. Sem fyrr á RÚV í metnaðarfullu samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og útvarpar tónleikum sveitarinnar, oftast beint, á fimmtudagskvöldum með ítarlegum kynnningum á undan. Að auki er því sem hæst ber í tónlistarlífi Evrópu útvarpað á öðrum kvöldum vikunnar og á sunnudögum eru sendar út nýjar upptökur úr tónlistarlífinu. Nýr þáttur verður í boði á laugardagsmorgnum, Þræðir. Þar er boðið upp á vandaða útvarpsþætti þar sem ákveðin umfjöllunarefni og þemu verða tekin fyrir, meðal annars í formi fléttuþátta. Eftir hádegi á laugardögum fer í loftið nýr þáttur í lok september, Sögur af landi, þar sem starfsmenn RÚV víða um land flytja svæðisbundnar fréttir og sögur. Nýr morgunþáttur Óðins Jónssonar hefur hafið göngu sína, sem og tónlistarþáttur Arndísar Bjarkar, Hálfnótan. Víðsjá eflist á nýju ári með fleiri nýjum röddum í menningarumfjöllun þáttarins. Útvarpsleikhúsið fær nýjan leikhússtjóra, Þorgerði E. Sigurðardóttur, þann 1. desember semt tekur við af Viðari Eggertssyni sem hefur leitt blómlega starfsemi síðustu ár. Leikhúsið heldur áfram á sömu braut. Í vetur verða fjölmörg ný íslensk verk frumflutt en áfram verður bætt í verkefnaskrána því nú bætist við framhaldsleikrit fjölskyldunnar um jólin – en í fyrra var slíku verki bætt við um páska. Þar sem orðunum sleppir er vönduð þáttaröð um vestræna tónlistarsögu. Nýr tónlistarþáttur að kvöldi, Bláar nótur, mun leiða hlustendur þægilega inn í nóttina. Boðið er upp á fjóra nýja barnaþætti, Vísindavarp Ævars, Inn í heim tónlistarinnar með Möggu Stínu, Sögu hlutanna og Sögu hugmyndanna, auk þess sem lesnar verða þjóðsögur fyrir börn. Bók vikunnar heldur áfram enda féll sú nýjung vel í kramið á síðasta ári. Aðrir fastir dagskrárliðir, s.s. Samfélagið, Mannlegi þátturinn, Segðu mér og Vikulokin halda áfram á sínum stað.  Nóbelsskáldinu verða gerð góð skil en Brekkukotsannáll hefur verið kvöldsagan í sumar en nú er að hefjast flutningur á Kristnihald undir jökli í flutningi skáldsins. Dagskráin mun kallast á við metnaðarfulla dagskrá í sjónvarpi sem helguð er Halldóri Laxnes. Ný upptaka á Hómerskviðum í flutningi Erlings Gíslasonar verður frumflutt.

Rás 2

Í vetur hefur göngu sína á Rás 2 nýr morgunþáttur frá klukkan sjö til níu á morgnana, Morgunútvarpið í umsjón þeirra Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur og Sigmars Guðmundssonar ásamt Jóni Þór Helgasyni, tæknimanni. Þetta er snarpur, beittur og líflegur morgunþáttur. Gamlir kunningjar taka svo við og fylgja okkur út daginn. Virkir morgnar, Poppland, Síðdegisútvarpið og Eldhúsverkin

Um helgar höldum við áfram vinsælum þáttum á borð við Bergsson og Blöndal og Svart og sykurlaust. Helgarútgáfan með Hallgrím Thorsteinssyni fór á dagskrá um páskana og gekk glimrandi vel. Þátturinn verður áfram á dagskrá í vetur. Nýr þáttur hefur göngu sína á sunnudögum eftir hádegisfréttir og það er þátturinn Sunnudagssögur í umsjón Hrafnhildar Halldórsdóttur. Sunnudagssögur er huggulegur sunnudagsþáttur sem verður að mestu byggður á viðtölum við fólk þar sem sögur þess – í víðum skilningi þess orðs – eru sagðar.

Albúmið með Jóni Ólafs og Kristjáni Frey fer aftur á dagskrá, þar taka þeir félagar fyrir eina þekkta plötu úr popp- og rokksögunni í hverjum þætti. Arnar Eggert er svo nýr þáttur sem heitir í höfuðið á þáttastjórnandanum Arnari Eggerti Thoroddsen. Fyrir komandi vetur var tekin sú ákvörðun að efla enn tónlistargagnrýni á Rás 2 og því var Arnar Eggert einnig fenginn til liðs við Andreu Jónsdóttur í gagnrýni á plötum vikunnar.

Á undanförnum árum hefur Rás 2 sífellt aukið umfjöllun um og beinar útsendingar frá hinum ýmsu viðburðum. Oftast eru þessir viðburðir tengdir íslenskri tónlist. Rás 2 er sannkallað viðburðaútvarp. Í ár mun Rás 2 m.a. sinna Iceland Airwaves, Músiktilraunum, All Tomorrow‘s Parties, Bræðslunni, Sónar og fjölmörgum öðrum tónlistarhátíðum og viðburðum. Auk þess sem hlustendum dagsins í dag er boðið upp á beinar útsendingar og upptökur af helstu tónlistarhátíðum landsins þá er með þessu verið að skrásetja íslenska tónlistarsögu.

Fréttir

Fréttastofan færir landsmönnum helstu tíðindi innanlands og utan, alla daga ársins, allan sólarhringinn.  Á vefnum – í útvarpi  - í sjónvarpi. Engar stórvægilegar breytingar eru áformaðar á fréttaþjónustu RÚV á komandi ári.  

Í haust hófst uppbygging á landsbyggðinni með ráðningu þriggja frétta- og dagskrárgerðarmanna á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi auk þess sem bætt verður við starfsemina á Austurlandi. Breytt og öflugra Kastljós snéri aftur í haust með nýjum ritstjóra Þóru Arnórsdóttur. Beitt viðtöl og ítarlegar fréttaskýringar verða áfram í öndvegi en við bætist vönduð og fjölbreytt umfjöllun um menningu sem Brynja Þorgeirsdóttir stýrir.  Spegillinn heldur áfram á sama tíma og áður.

KrakkaRÚV

Krakka-RÚV er yfirheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn; hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða á vefnum. Kjarninn í starfseminni er splunkunýr vefur, www.krakkaruv.is, sem fer í loftið í september. Þar er hægt að horfa á þætti eins og Stundina okkar, Ævar vísindamann, Vasaljós og fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps auk talsettra teiknimynda. Jafnframt er hægt að hlusta á íslenska tónlist og og úrval vandaðra útvarpsþátta fyrir börn. Boðið er upp á fjölbreytta tölvuleiki sem reyna bæði á rökhugsun og ímyndunaraflið.

Útvarp Krakka-RÚV er ný stafræn útvarpsstöð sem fer í loftið í september. Á stöðinni verður leikin íslensk barnatónlist alla daga vikunnar í bland við lesnar sögur, leikin ævintýri og vandaða barnaþætti.

Sjónvarpsdagskráin verður fjölbreytt. Í boði verða yfir 40 titlar af talsettum barnaþáttum og traustir vinir eins og Ævar vísindamaður og Gói og Gloría verða á sínum stað. Um miðjan september fer í loftið vandaður fréttaþáttur fyrir börn, Krakkafréttir, þar sem fjallað er um málefni líðandi stundar. Fréttirnar verða settar fram á auðskilinn og greinargóðan hátt og heimsfréttirnar settar í samhengi við veruleika íslenskra barna.

Krakka-RÚV er liður í því að auka þjónustu RÚV við börn. Markmið Krakka-RÚV er að gleðja börn, fræða og hvetja til skapandi verka. Krakka-RÚV hyggst bjóða börnum upp á ævintýralegt ferðalag á vit nýrra heima sem opna augu barna fyrir tækifærum lífsins og fjölbreytileika þess. Á þann hátt getum við búið til góðar minningar og áunnið okkur rétt til þess að verða órjúfanlegur hluti af æsku íslenskra barna.

Kynningarvefur

Á nýjum kynningarvef er stiklað á því helsta í dagskránni á komandi vetri, þó kynningin sé að sjálfsögðu langt í frá tæmandi. RÚV hvetur landsmenn til að kynna sér dagskránna sem hægt er að nálgast í gegnum RÚV.is og RÚV.is/haustid.

06.09.2015 kl.12:41
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, dagskrá, fréttir, kynningarvefur, Rás 1, Rás 2, rúv, Sjónvarpið, vefur