Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjögur rými í dagþjálfun og 18 á biðlista

Mynd með færslu
 Mynd: 360° vefur - Ja.is
Fjögur rými eru í Garðabæ í dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun en átján eru á biðlista. Níu einstaklingar nýta þessi fjögur rými sem eru í þjónustumiðstöðinni Ísafold. Þar til um síðustu áramót voru engin slík úrræði í bæjarfélaginu.

Greint hefur verið frá því í fréttum að á höfuðborgarsvæðinu bíði 179 eftir dagþjálfun. Í Hafnarfirði og Kópavogi eru um 30 á biðlistum í hvoru sveitarfélagi. Í svari Huldu Hauksdóttur, upplýsingastjóra Garðabæjar, segir að síðan árið 2013 hafi bæjaryfirvöld hvatt ríkið til að fjölga rýmum í dagþjálfun.

Bæjaryfirvöld hafa lagt til við ríkið að hús við Holtsbúð 87, þar sem áður var klaustur St. Jósefssystra, verði nýtt undir dagþjálfun. Í bréfi sem Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, sendi Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra í lok júlí segir að bæjaryfirvöld vilji leggja húsið til fyrir starfsemi á sviði öldrunarþjónustu og leita samninga við ríkið um leigu og fjármögnun á nauðsynlegum endurbótum, sem samkvæmt skýrslu Verkfræðistofunnar Eflu kosta um 270 til 570 milljónir á verðlagi síðasta árs. 

Garðabær leigði húsið við Holtsbúð frá árinu 1999 en keypti það svo 2014. Lítil starfsemi hefur verið í húsinu síðan árið 2012 og engin starfsemi síðasta eina og hálfa árið.