Fjögur ár síðan Chibok-stúlkunum var rænt

13.04.2018 - 01:10
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Boko Haram hefur rænt eitt þúsund börnum í Nígeríu síðan árið 2013. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Úttektin er gerð til að minnast þess að fjögur ár eru síðan 276 stúlkum var rænt úr skóla í bænum Chibok. Mohamed Malick Fall, starfsmaður UNICEF í Nígeríu, segir ítrekaðar árásir Boko Haram á börn vera svívirðilegar.

Hryðjuverkasamtökin Boko Haram hafa reynt að koma á harðlínu íslömsku ríki í norðausturhluta Nígeríu. Í það minnsta 20 þúsund manns hafa látið lífið af þeirra völdum og yfir tvær milljónir hafa flúið heimili sín. Sérstaklega ráðast vígamenn Boko Haram gegn skólum, en nafn samtakanna þýðir á máli innfæddra „vestræn menntun er bönnuð". Alls hafa Boko Haram eyðilagt 1.400 skóla og vel yfir tvö þúsund kennarar hafa verið myrtir af vígamönnum.

Þrátt fyrir að nígeríski herinn hafi náð til baka stórum svæðum af vígahreyfingunni árið 2015 hafa vígamenn síður en svo slegið slöku við. Enn gera þeir árásir á almenna borgara og hernaðarmannvirki. Í febrúar vöktu vígasamtökin upp slæmar minningar þegar þau rændu hundrað skólastúlkum í bænum Dapchi. Flestar þeirra hafa skilað sér aftur heim, en hugur íbúanna sótti aftur til mannránsins í Chibok 2014. Af þeim 276 sem var rænt þá er yfir 100 enn saknað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi