Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fjarstæðukennt eða órói í aftursæti?

11.03.2013 - 14:20
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég held að þessi vantrauststillaga sé sennilega það furðulegasta, það fjarstæðukenndasta sem hér hefur verið borið á borð," sagði Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, um tillögu Þórs Saaris um vantraust á ríkisstjórnina. Sagðist Steingrímur þó vera ýmsu vanur.

„Af hverju er ekki flutt vantraust á þingnefndina? Á Alþingi sjálft? Af hverju á ríkisstjórnina sem er ekki með þetta mál? Þetta er fáránlegt mál," sagði Steingrímur og kvað að réttast væri að beina vantraustinu að Sjálfstæðisflokknum sem væri að stöðva stjórnarskrárbreytingar nú, rétt eins og 2009 og 2007.

Steingrímur furðaði sig á því að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn skyldu fylgja Þór Saari að málum í vantrausti á ríkisstjórn á forsendum sem þessum flokkum væru þvert um geð. Svona hefði Þór verið leiddur til öndvegis í stjórnarandstöðunni. „Hann er orðinn yfirformaðurinn. Til hamingju Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Til hamingju Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins," sagði Steingrímur og kvað nýtt þríeyki komið fram í íslenskum stjórnmálum.

 

Órói í aftursætinu
„Það verður að segjast eins og er: oft er órói í aftursætinu og síðasta ræða bar þess merki," sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, og vísaði þar til formannsskipta hjá Vinstri-grænum.

Gunnar Bragi gagnrýndi ríkisstjórnina harkalega fyrir að verja heimilin ekki í baráttu þeirra gegn kröfuhöfum. Ekki hefði verið tekið á verðtryggingunni eða skuldir heimilanna leiðréttar líkt og Framsóknarflokkurinn hafi lagt til þegar árið 2009. Ríkisstjórnin hafi valið að styrkja fjármálakerfið frekar en heimilin. Hann gagnrýndi ríkisstjórnina harkalega fyrir að hafa lagt svo mikla áherslu á að breyta stjórnarskránni, enda hefði stjórnarskráin ekki valdið hruninu.

Það sem komið hefur í veg fyrir að fleiri tillögur hafi verið bornar fram um vantraust á ríkisstjórnina er aðeins það að Hreyfingin og Björt framtíð hafa varið hana falli, sagði Gunnar Bragi. Nú væri að myndast kosningabandalag þriggja flokka, Samfylkingar, Vinstri-grænna og Bjartrar framtíðar.