Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjársjóður sem þarf að minna á

Mynd: RÚV myndir - Halla Harðardótt / RÚV myndir

Fjársjóður sem þarf að minna á

06.11.2017 - 15:20

Höfundar

„Hér er allt fullt upp í rjáfur,“ segir Inga Lára Baldvinsdóttir, sviðsstjóri ljósmyndadeildar Þjóðminjasafns Íslands. Hún leiddi hlustendur Víðsjár um geymslur safnsins.

„Það er búið að safna hérna myndum síðan 1908, næstum hundrað og tíu ár,“ segir Inga Lára. „Aðföngin voru framan af fyrst og fremst frá einstaklingum en í seinni tíð hefur þetta þróast þannig að fólk er að laga til í dánarbúum og kemur með kassa hingað. Við stöndum frammi fyrir gríðarlegu magni og þó við höfum unnið sleitulaust mjög lengi, það eru um 900.000 færslur skráðar inn á sarp, þá er það ekki allt myndvætt.“

Er einhver mynd hér á bak við þessa þykku veggi sem þér finnst að ætti alltaf að vera til sýnis?

„Nei. Mér finnst ekki aðalatriðið að hlutir séu alltaf til sýnis. Mér finnst atriði að við eigum þá, og að við getum gripið til þeirra þegar þörf er á. Þetta er auðvitað auðvitað menningarsögulegur fjársjóður sem við erum að geyma hér, sem er kannski ekki endilega ástæða til að vera alltaf að sýna. En það þarf að sýna þá reglulega. Tökum sem dæmi portrettin hans Kaldals. Hann sýndi þau 1966 sjálfur, svo voru þau sýnd aftur 1996 og svo aftur núna 2016. Þetta er klassík sem þarf alltaf að vera að minna á að er hluti af sígildu menningarefni þjóðarinnar, sem allir eiga að hafa innsýn í. Þess vegna verður að sýna þetta reglulega. Það verður alltaf að vera að minna á þetta.“

Processed with VSCO with ke1 preset
 Mynd: RÚV myndir - Halla Harðardótt - RÚV myndir
Á skrifstofu Ingu Láru liggja menningarverðmætin á öllum borðum.

Á næstu vikum heimsækir Víðsjá nokkur af okkar helstu söfnum. Víðsjá sækir auðvitað reglulega söfnin heim og forvitnast um hverju er verið að miðla hverju sinni. En í þessum heimsóknum verður gramsað í geymslum safnanna, og grennslast fyrir um hverju er ekki verið að að miðla.

Processed with VSCO with ke1 preset
 Mynd: RÚV myndir - Halla Harðardótt - RÚV myndir

Í fyrstu heimsókninni leiddi Inga Lára okkur um ískalda rangala safnsins, uppfulla af spennandi menningarverðmætum sem sum hver hafa legið áratugi ofan í skúffu.