Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjarnemum fjölgar og íbúum fækkar

27.09.2018 - 09:50
Hlutfall fjarnema við Háskólann á Bifröst eykst með ári hverju. Rektor segir mikilvægt að þeir nemendur sem búi á Bifröst njóti þorpsins kosta og það sé undir nemendum komið hvort skólinn bjóði einn daginn aðeins upp á fjarnám. 

Örar breytingar hafa orðið á nemendahópi Háskólans á Bifröst á síðustu tíu árum. „Fjarnámið hefur sótt mjög á og nú eru 85 prósent nemendanna í fjarnámi sem skapar tækifæri fyrir nemendurna en gerir það að verkum að íbúðirnar hér eru vannýttar og miklu færri sem að búa hér,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst. 

Íbúar voru flestir árið 2008 og þá var aðeins helmingur nemenda í fjarnámi. Þá var háskólinn með tvö hundruð íbúðir til leigu en nú hefur helmingurinn verið seldur. 

Það eru líklega fá þorp á Íslandi þar sem fólki hefur fækkað jafnhratt og hér á Bifröst. Þegar mest var bjuggu tæplega sjö hundruð manns á Bifröst en eru nú innan við tvö hundruð.

Berglind Sunna Bragadóttir er nemi við háskólann og íbúi á Bifröst. Hvernig hefur þér fundist að vera hérna? „Rosalega gott. Fyrir mér mjög gott, allir að stefna að sama markmiðinu,“ segir Berglind. 

„Það sem að skiptir máli er að fólk njóti þess að vera hér í svona litlu samfélagi og taki þá kosti sem að því fylgja,“ segir Vilhjálmur. 

Vilhjálmur bendir á að fjarnámið laði að fjölskyldufólk og fólk í vinnu. Það er jafnframt fólkið sem á erfiðast með að rífa sig upp og flytja, þótt á Bifröst sé leigan lág, allt til alls og náttúran alltumlykjandi.

„Þetta er mjög barnvænt umhverfi, mjög rólegt og svona bara þægileg aðstaða og allt til alls nema að það vantar búð,“ segir Guðmundur Sævar Guðmundsson, íbúi á Bifröst. 

Að jafnaði eru um tíu til tuttugu íbúðir ekki í notkun. Verður Bifröst einhvern tímann alfarið fjarnámsskóli? „Það ræðst bara, það eru nemendurnir sem að ákveða það,“ segir Vilhjálmur. „Við erum núna í haust að taka inn stærstu árganga á mínum tíma í grunnnáminu og meistaranáminu, það er háskólanáminu, þannig að í heildina gengur þetta ágætlega,“ segir Vilhjálmur. 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður