Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjármálaáætlun næstu fimm ára kynnt

04.04.2018 - 16:30
Mynd: RÚV / RÚV
Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára gerir ráð fyrir að 75 milljörðum króna verði varið í fjárfestingu í sjúkrahúsþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Þá er gert ráð fyrir því að keyptar verði þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna, Hús íslenskra fræða verði byggt og hjúkrunarheimili.

Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að fjárfestingar ríkissjóðs nemi um 338 milljörðum króna á tímabilinu. Þar kemur fram að fjárfestingar aukist um 13 milljarða á næsta ári og að þær nái hámarki á árinu 2021. Skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar um 600 milljarða króna frá 2013.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hóf kynningu fjármálaáætlunarinnar og sagði meðal annars að nú sé að hægjast á hagvexti, en ríkisstjórnin sjái tækifæri í því til að fjárfesta í innviðum. „Það má segja að við sjáum fram á betri tíma í uppbyggingu innviða en nokkur flokkur lofaði fyrir síðustu kosningar.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra talaði næst og byrjaði á innspýtingu í heilbrigðis- og menntamál, mest færi þar til byggingar nýs spítala við Hringbraut og nefndi líka Hús íslenskra fræða en fór síðan í samgöngumálin. 

„Í samgöngumálunum, þar sem er verulegt verkefni framundan, að þá erum við að nýta færi, sem gefst meðal annars með óreglulegum arðgreiðslum frá fjármálafyrritækjunum, eins og við töluðum um í stjórnarsáttmálanum og fyrir kosningar, til þess að fara í átak á árunum 2019, 2020 og 2021, verulegt átak í samgöngumálum. Og í samgöngumálum og fjarskiptum þá ætlum við að ljúka ljósleiðaravæðingu alls landsins, sem er stórkostlegt afrek, að ná að tengja 99 prósent heimila í landinu á árinu 2020. Allt í allt í þennan málaflokk eru að fara um 124 milljarðar í framkvæmdir. Þessi fjármálaáætlun lýsir mjög þeirri sýn sem við sátum með í nóvember, þegar við mynduðum þessa ríkisstjórn, til þess að byggja hér upp innviði, nýta tækifæri sem er óvenju gott.“    

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að horft sé á stóru myndina núna en að farið verði í útfærslurnar þegar líður að hausti. Hann segir að gert sé ráð fyrir að skuldaviðmiði verði náð á næsta ári. Síðast þegar rikisfjármálaáætlun var lögð fram hafi verið gert ráð fyrir að vaxtagjöld yrðu tíu milljörðum króna hærri á næsta ári en nú sé gert sé ráð fyrir. „Þetta skapar okkur svigrúm til að færa fjármunina yfir til annarra verkefna.“

Alls er gert ráð fyrir tæplega 75 milljörðum króna í fjárfestingu í sjúkrahúsþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að framkvæmdir við byggingu nýs meðferðarkjarna hefjist á næsta ári en að meginþungi framkvæmda verði á árunum 2020 til 2023. Aðrar stórar fjárfestingar sem taldar eru til eru kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, uppbygging hjúkrunarheimila og Hús íslenskra fræða. 

„Gert er ráð fyrir kerfisbreytingu til að bæta kjör örorkulífeyrisþega og efla þá til samfélagsþátttöku. Einnig er áformað að hækka hámarksfjárhæðir í fæðingarorlofi og lengja orlofstímann,“ segir í fréttatilkynningu.

Ríkisstjórnin hyggst ræða við aðila vinnumarkaðarins á árinu um samspil tekjuskatts og bótakerfa en í áætluninni er gengið út frá því að tekjuskattur lækki um eitt prósentustig í neðra skattþrepi á næstu fimm árum. Um leið sé stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga, samhliða endurskoðun bótakerfa. 

Í upphafi árs var kolefnisgjald á eldsneyti hækkað um 50 prósent og er fyrirhugað að hækka gjaldið um 10 prósent árið 2019 og aftur 2020. Þá er í áætluninni gert ráð fyrir að skoðaðar verði leiðir til gjaldtöku af ferðamönnum. Miðað er við að gjaldið verði lagt á frá og með árinu 2020.

Í síðasta mánuði gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar ríkisstjórnina fyrir að brjóta lög. Lögum samkvæmt skal leggja áætlunina fram eigi síðar en 1. apríl. Hins vegar er búið að leggja fram fjármálastefnu og samþykkja á Alþingi. Hún er lögð fram til grundvallar fjármálaáætluninni. Í fjármálaáætlun er staða efnahagsmála greind og fjármálastefna ríkisstjórnarinnar sundurliðuð. Meðal annars verða línurnar lagðar í fjárveitingum til mennta-, samgöngu- og heilbrigðismála. 

Hér má lesa fréttatilkynninguna í heild sinni. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV