Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fjármagni spítala með eignasölu

19.05.2014 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Byggt verður við núverandi húsnæði Landspítalans og gerðar endurbætur á því, samkvæmt þingsályktunartillögu sem samþykkt var á föstudag. Fjármögnun verði að vera tryggð áður en framkvæmdir hefjast. Heilbrigðisráðherra segir að það verði gert með sölu ríkiseigna.

Áætlað er að kostnaður við uppbyggingu Landspítalans verði um 60 milljarðar króna, en ekki 85 milljarðar eins og áður var gert ráð fyrir. Framkvæmdir eiga hefjast um leið og fjármögnun er tryggð. Tillagan hljóðaði upphaflega svo að ljúka ætti undirbúningi byggingu nýs Landspítala við Hringbraut og hefja byggingu hans strax að því loknu, en var breytt í meðförum þingsins. 

„Í stað þess að tala um eina nýja byggingu þá er verið að tala um fleiri byggingar sem að á þessu svæði eru. Sumar þurfa algerrar endurnýjunar við, svo eru aðrar sem að verða nýjar. Stóra atriðið við þetta er að mínu mati að það ríkir almennur skilningur og sátt um það að það þurfi að bæta húsakost þjóðarsjúkrahússins,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Kristján Þór á von á að ríkissjóður fjármagni verkefnið með sölu ríkiseigna. „Mér finnst það líklegast miðað við þessa pressu sem að við finnum til þessa verks, að þá sé það í rauninni eina leiðin til þess að koma þessum áformum til framkvæmda.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans segir að húsnæði Landspítalans í Fossvogi verði áfram notað, til dæmis sem legudeild. Bráðamóttaka og gjörgæsla verði öll á einum stað, við Hringbraut.

[email protected]