Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjárlagafrumvarpið veldur vonbrigðum

11.09.2018 - 18:54
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fjárlagafrumvarpið veldur vonbrigðum, segir formaður Eflingar sem telur að lítið sé gert fyrir lágtekjufólk. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir hins vegar að of langt sé gengið í ríkisútgjöldum. Forsendur frumvarpsins um hagvöxt séu of bjartsýnar.

Samtök atvinnulífsins fagna því að í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds. 

„Tryggingagjöld skila um 100 milljörðum í ríkissjóð og þegar þetta er komið að fullu til framkvæmda eru þetta um átta milljarðar sem eru að skila sér í lækkun tryggingagjalds. Og því ber að fagna sérstaklega. Að sama skapi er ekki hægt að líta fram hjá því að vaxtabyrði ríkissjóðs hefur lækkað mjög hratt á undanförnu árum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Þýðir þetta að það er aukið svigrúm til launahækkana?

„Spurnigin eða svarið er einfaldara flóknara en svo. En allt hjálpar. Fyrirtækin í landinu eru komin á fremstra hlunn og núna þurfum við að skapa rými fyrir fyrirtækin til þess að ná vind í seglin á nýjan leik áður en við höldum áfram á þeirri braut sem við höfum farið undanfarin ár,“ segir Halldór.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar er ekki jafn jákvæð gagnvart fjárlagafruvarpinu.

„Ég verð bara fyrir töluverðum vonbrigðum. Það er bara alltof lítið fyrir okkar fólk hér. Ef t.d. horfum bara á persónuafsláttinn þá hækkar hann mjög takmarkað. Hækkunin á honum dugir ekki til þess að halda í við launaþróun. Ef við horfum t.d. á þá hækkun barnabóta sem þarna er vissulega til staðar þá er hún bara alls ekki nógu mikil til þess að bæta fyrir þau skemmdarverk sem hafa verið unnin á því kerfi. Húsnæðismálin. Hækkunin á vaxtabótum sýnist mér ekki einu sinni duga til þess að bæta fyrir þá lækkun sem varð milli síðustu tveggja ára. Og þessi hækkun á hússnæðisstuðningi sem talað er um er bara mjög snautleg,“ segir Sólveig Anna.

„Það sem við getum gagnrýnt í fjárlagafrumvarpinu er að forsendur eru mjög bjartsýnar,“ segir Halldór Benjamín. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 2,5 prósenta hagvexti næstu árin. „Í raun eru allir tekjustofnar ríkisins þandir til hins ýtrasta. Á þeim stað í hagsveiflunni sem við erum núna tel ég að það sé ekki skynsamlegt enda eigum við að leggja til hliðar og spara til mögru áranna og því miður held ég að það hefði mátt ganga lengra í þeim efnum,“ segir Halldór.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV