Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjarðalistinn leiðir þreifingar í Fjarðabyggð

28.05.2018 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson
Engar formlegar viðræður eru hafnar um myndun meirihluta í Fjarðabyggð. Þar féll meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknar og óháðra með tveimur atkvæðum. Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans sem fékk flesta menn kjörna, segir að óformlegar þreifingar hafi farið fram með fleiri en einum flokki. Fulltrúar listans ætla að funda með baklandinu í dag um næstu skref. Fjarðalistinn getur myndað meirihluta með hvaða flokki sem er.

Hinir flokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkur gætu líka myndað meirihluta en Miðflokkurinn beindi spjótum sínum mjög að meirihlutaflokkunum í aðdraganda kosninga og gagnrýndi þá harðlega fyrir fjármálastjórn. Oddviti Sjálfstæðismanna gaf í skyn á framboðsfundi í Neskaupstað að hann teldi erfitt að vinna með Miðflokknum. Rúnar Gunnarsson, oddviti Miðflokksins, sagði í samtali við RÚV í morgun að hvorki Sjálfstæðismenn né Framsókn hafi haft samband og líst yfir áhuga á því að Miðflokkurinn kæmi inn í meirihluta með þeim.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hittust oddvitar Fjarðalistans og Framsóknar í gær og ætlar Fjarðalistinn að ræða við Miðflokkinn klukkan fjögur í dag. Fréttastofan hefur ekki upplýsingar um hvort Fjarðalistinn hefur rætt við Sjálfstæðismenn.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV