Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fjalla um gáleysi Biebers á Íslandi

15.03.2019 - 17:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gáleysislegt sprikl kanadíska poppsöngvarans Justins Biebers eftir börmum Fjaðrárgljúfurs og lokun Umhverfisstofnunar í kjölfarið er nú tilefni fréttaskrifa hjá erlendum fjölmiðlum. Sem kunnugt er hefur Umhverfisstofnun lokað gljúfrinu fyrir ágangi ferðamanna sem tóku að streyma þangað í stríðum straumum eftir að tónlistarmyndband Biebers birtist á Youtube en þar sést hann galgopast utan merkra gönguleiða í trássi við reglur staðarins.

Fegurðar Fjaðrárgljúfurs nutu fáeinir Íslendingar þar til í nóvember 2015 þegar myndband Biebers birtist. Það er ekki nóg með að hann gangi utan merktra stíga heldur sést hann velta sér í viðkvæmdi mosabreiðu í Eldhrauni skammt vestan Kirkjubæjarklausturs.

Í frétt breska blaðsins Telegraph er rætt við Daníel Frey Jónsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun. Hann segir að hlánað hafi undanfarið og því hafi moldugur göngustígurinn og niðurníddur grasbletturinn við hlið hans orðið að einu drullusvaði og því leggi ferðamenn í landvinninga og fótum troði grasið þegar þeir forðist aurinn. Daníel segir að af þessum völdum hafi orðið gróðurskemmdir. 

Í viðtali við fréttastofu RÚV í fyrradag sagðist Daníel vongóður um að þegar lokuninni létti í júníbyrjun, verði gróðurinn búinn að jafna sig að mestu leyti. Landvörður er nú við Fjaðrárgljúfur árið um kring og hefur hann í nógu að snúast við að koma erlendum ferðamönnum í skilning um að ekki sé heimilt að ganga á gljúfurbörmum. Daglega þurfi að snúa burtu hátt í 200 bílum ferðamanna.

Hanna Valdís Jóhannsdóttir landvörður sagðist nýverið í samtali við Samfélagið á Rás eitt þurfa að hefja vinnudaginn á því að fara og sækja þá ferðamenn sem hafi gengið inn á svæðið, fram hjá þremur lokunarskiltum. Þeir erlendu ferðamenn sem vilji sjá Fjaðrárgljúfur séu ýmist aðdáendur Biebers eða Game of Thrones. Þó svo að spottar, kaðlar og skilti séu fyrir álpaðist Bieber út á klettasnasir. Og þetta þrá aðdáendur hans að endurtaka. Hanna Valdís segir að sumir hafi reynt að múta henni til þess að komast inn á svæðið. Þrjú hundruð þúsund manns heimsóttu Fjaðrárgljúfur í fyrra. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV