Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjalla ekki um sendiherramálið í dag

12.12.2018 - 09:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun ekki funda um sendiherramálið svokallaða vegna þess að þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa ekki svarað ítrekuðum boðum um að mæta til fundarins. Fundur nefndarinnar hefst klukkan 10 í dag.

Á fundinn var einnig búið að boða Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. Guðlaugur Þór er erlendis í dag og hefði ekki komist á fund nefndarinnar.

Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð, sem báðir eru þingmenn Miðflokksins, sátu á Klausturbarnum í lok nóvember þar sem gerð var upptaka af samtali þeirra og fjögurra annarra þingmanna. Þar má heyra Gunnar Braga segja frá loforði sem hann tók af Bjarna, formanni Sjálfstæðisflokksins, um að Gunnar Bragi myndi sjálfur fá sendiherrastöðu ef hann myndi skipa Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sem sendiherra. Geir var skipaður sendiherra Íslands í Bandaríkjunum í utanríkisráðherratíð Gunnars Braga.

Á upptökunum heyrist Sigmundur Davíð staðfesta þessa frásögn Gunnars Braga. Eftir að upptökurnar voru gerðar opinberar hafa þeir þvertekið fyrir að sagan um loforðið hafi verið sönn. Bjarni Benediktsson hefur jafnframt neitað því að hafa veitt slíkt loforð og Guðlaugur Þór segist ekki vita til þess að til stæði að gera Gunnar Braga að sendiherra.

Spurningar hafa vaknað vegna þessara orða Gunnars Braga og Sigmundar Davíðs. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata og varamaður Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hefur sagt að þetta gæti verið brot á hegningarlögum vegna spillingar í opinberu starfi.