Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fiskkaupendur farnir að leita annað

02.01.2017 - 21:38
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fiskkaupendur í Frakklandi eru þegar farnir að leita annað eftir fiski eftir að íslenskur fiskur hætti að berast vegna sjómannaverkfalls, segir fiskútflytjandi. Hann segir ekki sjálfgefið að ná þessum markaði aftur að loknu verkfalli.

Verkfall sjómanna hefur nú staðið í tæpar þrjár vikur og áhrifa þess er farið að gæta víða, tekjur fiskvinnslufólks í landi hafa dregist saman, ekki verður veitt undanþága vegna loðnuleitar á fimm skipum og verkbann á vélstjóra er yfirvofandi. Og áhrifanna er farið að gæta í útlöndum, til dæmis í Frakklandi þar sem er einn mikilvægasti markaður Íslendinga fyrir ferskan fisk, segir Guðmundur Stefánsson hjá Novo Foods í Frakklandi..

„Já það er farið að hafa áhrif. Það er náttúrulega miklu minna framboð af fiski á markaðnum og þess vegna erfiðara um vik og fyrirtækin farin að leita annað.“

Guðmundur segir fyrst og fremst leitað til Noregs eftir fiski sem er unnin í Bretlandi, Danmörku og Póllandi og í Noregi líka. Einnig sé fluttur inn fiskur sem er unninn úr uppþíddu hráefni, en hann fer á markað með ferskum fiski.

Hann segir marga af viðskiptavinum þeirra hingað til ekki hafa haft áhuga á frosnum þorski úr Kyrrahafi og Alaska eða þorski sem Rússar veiða í Barentshafi, þessi afli var frystur og síðan þíddur, en ef fisk vantar aukist áhuginn líklega. Novo Foods hefur flutt til Frakklands  hátt í 200 tonn af ferskum fiski frá Íslandi á mánuði og um 15 þúsund tonn af þorskafurðum fóru á Frakklandsmarkað á síðasta ári. Guöðmundur óttast að erfitt gæti reynst að endurheimta markaði sem tapast.

„ Það er veruleg hætta á því, allavega í einhvern tíma og sérstaklega ef þetta dregst á langinn. Ef að viðskiptavinir okkar og þeir sem eru vanir að fá íslenska fiskinn leita annað þá er ekki þar með sagt að þeir komi strax til baka þegar við getum afhent aftur,“ segir Guðmundur Stefánsson hjá Novo Foods í Frakklandi.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV