Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fiskistofu ómögulegt að sinna eftirlitsskyldu

17.01.2019 - 15:52
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Eftirlit Fiskistofu með vigtun, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda styður ekki með viðunandi hætti við markmið laga um stjórn fiskveiða og umgengni um nytjastofna sjávar. Þetta er niðurstaða Ríkisendurskoðanda í úttekt á eftirliti Fiskistofu. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fjallaði um skýrsluna á fundi sínum í dag.

Alþingi óskaði eftir úttektinni eftir að Kveikur fjallaði um umfangsmikið brottkast og  í nóvember 2017. Þar kom fram að Fiskistofa geri ráð fyrir að þorri þeirra sem starfi í sjávarútvegi geri það löglega.

Í skýrslunni segir að Fiskistofu sé ómögulegt að sinna öllu því eftirliti sem henni ber að sinna, meðal annars vegna skorts á úrræðum og viðurlögum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur talið að Fiskistofa hafi uppfyllt eftirlitsskyldu sína miðað við þær fjárheimildir sem stofnunin hefur haft yfir að ráða.

Ríkisendurskoðandi telur að stjórnvöld verði að grípa til aðgerða til þess að Fiskistofa geti sinnt skyldu sinni. „Ef ekki verður brugðist við þeim annmörkum sem eru til staðar með viðunandi hætti er ljóst að eftirlit með nýtingu auðlinda hafsins og samþjöppun aflaheimilda verður áfram veikburða, óskilvirkt og ekki í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis.“

Eftirlitið ófullnægjandi

Í skýrslu Ríksendurskoðunar kemur fram að eftirliti Fiskistofu, þar sem fulltrúi stóð yfir vigtun hjá vigtunarleyfishöfum, nái til innan við hálfs prósents að meðaltali af lönduðum afla hér á landi. „Verulegir áhættuþættir eru til staðar og eftirlit með vigtuninni er ófullnægjandi,“ segir í skýrslunni.

Ríkisendurskoðandi segir að efast megi um að eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla skili tilætluðum árangri, hvort heldur sem er á hafnarvog eða hjá aðilum sem hafa leyfi til endur- eða heimavigtunar. Núverandi fyrirkomulag leyfir í raun umtalverð frávik í skráningu heildarmagns á sama tíma og Fiskistofa hefur ekki sinnt skilvirku eftirliti.

Að mati ríkisendurskoðanda þarf að grípa til markvissra ráðstafana til að bæta úr þessu og tryggja skilvirkt og árangursríkt eftirlit með vigtun og skráningu sjávarafla.

Ekkert tilefni til fullyrðinga um brottkast

Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið telur að brottkast sé óverulegt innan íslenska fiskveiðiflotans þrátt fyrir þá sterku hagrænu hvata sem eru til staðar.

Ríkisendurskoðun telur hins vegar ekki tilefni til fullyrðinga um umfang brottkasts. Sterkir hagrænir hvatar eru til staðar og Ríkisendurskoðandi bendir á að Hafrannsóknarstofnun hefur ekki ráðist í neinar rannsóknir á tegundaháðu brottkasti í rúman áratug. Þá hefur gagnasöfnun um lengdarháð brottkast dregist talsvert saman undanfarin ár. „Eftirlit með brottkasti er afar takmarkað, veikburða og ómarkvisst,“ segir í úttektinni.

Taka þurfi alvarlega áhyggjur og vísbendingar um að brottkast sé stundað. Raunverulegur árangur eftirlitsins er auk þess á huldu enda liggja hvorki fyrir skýr árangursviðmið eða árangursmælikvarðar af hálfu stjórnvalda.

Treysta á kvótaeigendur

Fiskistofa treystir nánast alfarið á tilkynningarskyldu handhafa aflahlutdeilda þegar kemur að eftirliti með hvort aflahlutdeild sé í samræmi við það hámark sem skilgreint er í lögum. Samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar verður ekki séð að fiskistofa kanni yfirráð tengdra aðila yfir aflahlutdeildum með markvissum og reglubundum hætti.

Svo Fiskistofu sé unnt að sinna eftirlitinu með skilvirkum og árangursríkum hætti þarf að ráðast í ýmsar úrbætur, að mati Ríkisendurskoðunar. „Mikilvægt er að skilgreind verði skýr árangursmarkmið um eftirlitshlutverk Fiskistofu, að mótuð sé skýr afstaða til þess hverju eftirlitið á að skila og að gripið sé til nauðsynlegra ráðstafana til að árangursmarkmiðum verði náð. Í þeirri vinnu þarf m.a. að endurskoða fjölda þeirra starfsmanna sem sinna eftirliti, taka skýra afstöðu til þeirra vandkvæða sem hafa háð eftirliti stofnunarinnar og leysa úr þeim.“

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV