Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fiskistofa verður í Borgum á Akureyri

01.07.2016 - 17:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Í dag var undirritaður leigusamningur á milli Fiskistofu og fasteignafélagsins Reita um leigu á húsnæði á Akureyri. Vel hefur gengið að ráða nýtt fólk til starfa.

Fiskistofa hefur verið á Akureyri frá því á síðasta ári, eftir afar umdeilda ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar, núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, þess efnis. Skrifstofur Fiskistofu verða í Borgum en húsnæðið er í eigu fasteignafélagsins Reita.

Sanngjarnt verð

Erfiðlega hefur gengið að fá þangað leigjendur vegna hárrar húsaleigu og spilar þar meðal annars inn í leigusamningur Reita við Fasteignir ríkissjóðs. Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, segir þó að leigan verði ekki svo há fyrir Fiskistofu.

„Það má kannski segja að við séum ekki inni á þeim samningi, við erum að semja beint við eiganda hússins í kjölfar auglýsingar þar sem aðilar kepptust um að bjóða. Þannig að við erum fá hérna húsnæði á sanngjörnu verði,“ segir Eyþór.

Ráðningar gengið vel

Með þessu er eitt stærsta verkefnið við flutninginn leyst, en nokkurn tíma tók að finna hentugt húsnæði. Í nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um flutning ríkisstofnana var meðal annars fjallað um mikla veltu á starfsmönnum. Eyþór segir að vel hafi gengið að ráða fólk í lausar stöður.

„Það hefur verið auðvelt að fá hérna mjög hæfa starfsmenn og það hefur verið mikil ásókn í störfin, bæði af fólki hérna að norðanlands og eins af höfuðborgarsvæðinu og víðar á landinu. Þannig að við höfum ekki lent í neinum vandræðum og raunar átt mjög gott með að fá hæfa starfsmenn,“ segir Eyþór.