Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fiskistofa fær heimild til myndavélaeftirlits

25.04.2018 - 10:19
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um brottkast, endurvigtun og tengsl við Samherja.
 Mynd: RÚV
Sjávarútvegsráðherra hyggst á næstu vikum kynna frumvarp sem veitir Fiskistofu heimild til að notast við myndavélar í eftirliti stofnunarinnar. Slíkt eftirlit er talið nýtast stofnuninni vel við að koma upp um brottkast og vigtarsvindl, sem stofnunin hefur ekki talið sig geta sinnt sem skyldi. Lagabreytingar sem ráðherra hafði boðað á umdeildum vigtunarlögum, bíða haustsins og niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar á starfsemi Fiskistofu.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra boðaði umfangsmiklar breytingar á lögum um vigtun sjávarafla og viðurlögum við brotum eins og brottkasti og vigtarsvindli stuttu fyrir jól. Hann lýsti því svo yfir í viðtali við Kveik í desember síðastliðnum að hann hygðist mæla fyrir breytingum á lögum um vigtun sjávarafla nú á vorþingi. 

Úttekt Ríkisendurskoðunar

Frumvarp sjávarútvegsráðherra hefur þó enn ekki litið dagsins ljós og mun ekki gera á þessu þingi. Ástæðan er að sögn ráðherrans sú að hann vilji bíða niðurstöðu úttektar Ríkisendurskoðunar á starfsemi Fiskistofu, sem væntanlega kalli á frekari viðbragð og endurskoðun laga. Úttekt sem Kristján Þór hafði lýst yfir að ráðuneyti hans myndi gera á starfsemi Fiskistofu, var á endanum sett í hendur Ríkisendurskoðunar, samkvæmt ákvörðun Alþingis, eftir tillögu Oddnýjar Harðardóttur þingmanns. Í greinargerð tillögunnar var að tilefni hennar sagt umfjöllun Kveiks um að Fiskistofu tækist ekki að uppfylla skyldur sínar lögum samkvæmt.

Myndavélaeftirlit heimilað

Kristján Þór sagðist hins vegar í samtali við Kveik í byrjun vikunnar ekki ætla að bíða með frumvarp sem heimila mun Fiskistofu að nýtast við myndavélaupptökur við eftirlit sitt með brottkasti og vigtarsvindli. Frumvarpið verður kynnt og sent til umsagnar á næstu vikum. Fiskistofa hefur áður óskað eftir slíkri heimild til myndavélaeftirlits en sem kunnugt er fékk stofnunin skipun um það frá Persónuvernd árið 2013 að eyða upptökum sem Fiskistofa hafði tekið af framhjálöndun útgerðar í Njarðvíkurhöfn. Mál gegn útgerðinni var því fellt niður í kjölfar úrskurðarins, þar sem sönnunargögn voru ekki til staðar.

Fiskistofa máttlaus

Eins og fram kom í  Kveik í nóvember síðastliðnum er Fiskistofa vanbúin til að sinna eftirliti með fiskveiðauðlindinni. Um það báru bæði núverandi og fyrrverandi starfsmenn Fiskistofu í viðtölum við Kveik. Fiskistofustjóri sjálfur sagði stofnunina ekki í stakk búna til að gegna því hlutverki sem henni væri ætlað. Regluverk væri lélegt og viðurlög sömuleiðis. Af þeim sökum hefði engin stór rannsókn á vigtarsvindli farið fram í á fimmta ár.

Í upphafi árs 2014 lýsti Fiskistofustjóri því yfir í viðtali að „Útilokað væri að hafa eftirlit með vigtun sjávarafla.“ Endurvigtun væri „alvarlegur veikleiki í regluverkinu.“ sem allt benti til að væri misnotaður til að "hagræða tölum". Fyrrum undirmenn hans sem rætt var við í Kveik sögðu niðurfellingar nokkurra stórra brotamála ári áður hafa komið eins og kalda vatnsgusu í andlit starfsmann sem unnið höfðu að málunum.

Fiskistofustjóri tók ákvörðun um niðurfellingu málanna að því er hann segir, vegna þess að allt útlit var fyrir að galli í regluverkinu gerði saksókn í þeim vonlausa. Málin snerist um gríðarlegar fjárhæðir, sem ætlað var að hefði verið landað ólöglega. 

Brottkast enn í rannsókn

Myndbönd sem sýnd voru í Kveik og fréttum Sjónvarps í nóvember og sýndu umfangsmikið og ítrekað brottkast á afla um borð í aflaskipinu Kleifabergi RE eru enn til rannsóknar hjá Fiskistofu. Útgerðarfélagið Brim, sem á og gerir út Kleifabergið, kærði ótilgreinda aðila, eftir að birt var myndband frá sumrinu 2016 sem sýndi hvernig hausuðum og slógdregnum þorski var hent í sjóinn, að því er sjónvarvottur sagði Kveik, í tonnavís.

Útgerðin taldi myndbandið sýna spjöll á eigum útgerðarinnar, fiski sem aldrei ætti að henda. Engin slík kæra var þó lögð fram vegna myndbanda frá árunum 2008-2011 sem sýndu miklu magni af makríl, karfa, ufsa og þorski, hent í nokkur skipti um borð í Kleifaberginu.

Samkvæmt heimildum Kveiks hefur einstaklingurinn sem tók brottkastið sumarið 2016 upp á myndband, þegar vitnað um tilurð þess hjá Fiskistofu. Frásögn hans sé á annan veg en útgerðarinnar. Brottkastið hafi verið algengt og honum blöskrað meðferð aflans og hann því tekið eitt slíkt tilfelli upp á myndband.

Viðurlög Fiskistofu bitlaus

Allt að sex ára fangelsi liggur við alvarlegu og ítrekuðu brottkasti, sannist sekt fyrir dómi. Fiskistofa hefur svo bæði sektar og þvingunarúrræði til að takast á við slík brot. En eins og Fiskistofustjóri sjálfur benti á í Kveik eru viðurlögin í raun gagnslaus, þegar kemur að Fiskistofu sjálfri. Veiðileyfasviptingar séu þannig úr garði gerðar að hægt er að komast hjá þeim með því að færa kvóta og áhöfn yfir á annað skip og halda veiðum áfram, á meðan viðkomandi skip sætir veiðileyfissviptingu.